Elliðaárnar. Laxar í Teljarastreng. Mynd Heimir Óskarsson.

Menn hafa velt fyrir sér hvers vegna Elliðaárnar hafa verið á svipuðu róli í afla og í fyrra sem var alls ekki sérstakt veiðisumar. Skilyrði voru oftast með betra móti og göngur mun líflegri. En samt er skráð veiði ekki meiri en í fyrra. Ef til vill verður hún eitthvað svipuð þegar allt er talið.

Nú í sumar var í fyrsta skipti aðeins veitt á flugu í Elliðaánum og öllum laxi sleppt. Fiskifræðingar töldu að laxastofn árinnar væri í bráðri hættu og þyldi ekki að drepið væri úr honum. Þó var aðeins tveggja laxa kvóti á stöng og langt frá því allir sem nýttu sér það. Þetta fældi talsvert af eldri veiðimönnum frá ánum, menn með mikla reynslu. Þar er komin ein skýring. Bæði að nýtingin var ekki alltaf sem skyldi og að með þeim gömlu hvarf mikil reynsla.

Önnur skýring er sú að veiðivörðum sem sáu m.a. um skráningu afla var sagt upp og skráning afla færð í rafrænt form. Ekki þarf mikið hugmyndarflug til að ætla að einhver  x-fjöldi veiðimanna hafi ekki nennt að setja sig inn í þau mál eftir vaktina. Hvað vantar mikið í skráninguna þyrfti mikla vinnu til að grafa upp.

Og síðast en alls ekki síst þá duttu ýmsir nautsterkir veiðistaðir út með maðkveiðibanninu. Frábært sýnishorn af því má sjá í samantekt Svavars Hávarðssonar ritstjóra á FB síðu áhugamanna um Elliðaárnar. Hann tók saman veiðitölur í Elliðaánum til og með 10.september síðast liðinn. Þá voru komnir 510 laxar á land úr ánni. Hann byrjar efst, Hundasteinar efstir með 122, Hraunið 104, Símastrengur 78, Árbæjarhylur 67 og svo framvegis. Neðar og neðar sígur listinn og Svavar dregur línuna við „fjóra laxa eða minna“. Og í þeim flokki er m.a. að finna hinn eina sanna Sjávarfoss sem um árabil hefur verið einn öruggasti veiðistaður árinnar langt fram eftir sumri. Oftar en ekki með þriggja stafa tölu eftir sumarið. Hann var með 4 laxa af 518. Í sama flokki voru og kvarnirnar milli Sjávarfoss og gömlu brúar og Breiðan, neðan við gömlu brú var með aðeins 11 laxa. Þó að flugan fari þar vel, hefur um árabil verið mikil og góð veiði þar á maðkinn. En svona er þetta.