Aldeilis tíðindi í leigubransanum. VoV hefur fyrir því traustar heimildir að Lax-á/Árni Baldursson verði ekki lengur með Stóru Laxá í Hreppum á sínum vegum eftir þetta sumar. Nýr leigutaki hefur gefið sig fram og heimildir okkar herma að allt sé þetta gengið eftir. Formaður Stóru Laxár deildar Veiðifélags Árnesinga vill þó ekkert gefa upp.
Árni Baldursson og félag hans Lax-á hafa verið með Stóru Laxá á leigu síðustu árin og áin verið eitt af flaggskipum fyrirtækisins. Nú eru komnir nýir tímar. Nýr leigutaki heitir Finnur B. Harðarson. Finnur hefur byggt upp og rekið útgerðarfyrirtæki í Kanada, en hefur nú selt og hyggur á heimkomu. Hvert fyrirkomulagið verður mun koma í ljós, en reikna má með yfirlýsingu frá veiðifélaginu fyrr heldur en seinna. Eftir því sem VoV kemst næst, hefur þetta ekkert að gera með samskiptaörðugleika milli Árna og veiðifélagsins. Þvert á móti allt unnið í góðu.