Við höfum fylgst með líflegum opnunum í Stóru Laxá í Hreppum að undanförnu og nú er röðin komin að Soginu, þar er nú allt að lifna eftir reyndar einkar góða bleikjuveiðivertíð í vor. Á það einkum við um Ásgarðsveiðarnar.

„Laxinn er að ganga í Sogið núna, fimm komu á land í gærmorgun, líflegast var við Frúarstein. Ég hef frétt af fleiri löxum í dag og að það sé líflegt í Ásgarði, greinilega spennandi tímar fram undan“ segir Árni Baldursson staðarhaldari í Ásgarði.

Fyrir utan Stóru Laxá og Sogið má bæta við að enn ein áin á þessum sömu slóðum, Tungufljót, hefur verið að skila sínu síðustu daga. Ekki mikið farið í hana til þessa, enda oftast talin meiri síðsumarsá, en síðustu sumur hefur borið á því að fiskur gangi fyrr í ána. Nafntogaðasti veiðistaðurinn er kenndur við fossinn fagra Faxa, þar niður af er gríðarlega veiðileg breiða og þar safnast laxinn í stórar torfur. Síðustu daga hafa laxar verið að veiðast þar. Þetta svæði er einnig undir umsjón Árna Baldurssonar hjá Lax-á.
            
		









