Erlendir veiðimenn gætu orðið fleiri en nokkurn óraði fyrir

Stórlax.

Vitað var að aukinn fjöldi erlendra veiðimanna kæmi til landsins á þessu sumri, en sú aukning gæti orðið mun meiri heldur en nokkurn óraði fyrir fyrir fáum vikum, því hin hörmulega framganga Rússa í Úkrainu hefur skotið loku fyrir að erlendir veiðimenn sæki rússnesku árnar heim.

Í samtali við mann í dag sem þekkir all vel til, hefur m.a. tengsl við veiðiferðaskrifstofuna Frontiers, kom fram að í Bretlandi einu saman eru vel á níunda hundrað veiðimanna sem hafa farið í hinar frægu ár Kólaskaga á þeirra vegum. Svo eru fleiri veiðileyfasalar sem sent hafa kúnna sína til Rúslands, en þangað fer enginn frá Vesturlöndum til veiða fyrst um sinn. Það þýðir að finna þarf nýjar lendur fyrir þennan viðskiptavinahóp a.m.k. á meðan stríðsástandið varir.

Að sjálfsögðu dettur Ísland þar ofarlega, ef ekki efst á blaði, með Kórónaveirufaraldurinn á hraðri niðurleið og allar hömlur afnumdar. Á sama tíma er vertíðin alls ekki að fara vel af stað á Bretlandseyjum sjálfum. En hvar á að koma öllum þessum skara veiiðimanna fyrir þegar vitað er að flestir ef ekki allir veiðileyfasalar eru nú þegar vel- ef ekki uppseldir?

Það gæti farið svo að lítið verði af „götum“ þetta árið og þetta gæti jafnvel haft áhrif á verðlagið sem þó er að hækka í laxveiðinni nú þegar. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa máls.