Vikutölur angling.is birtust í gærkvöldi og má af þeim sjá að víða er góður gangur sem þakka má öflugum smálaxagöngum. Viss svæði eru þó aðeins að tilla þokkalega og hafa ekki fengið jafn kraftmiklar smálaxagöngur. Sumar ár eru betri en á sama tíma í fyrra, aðrar eru lakari. Skilyrði hafa almennt verið góð. Lítum hér að vanda á töluhæstu svæðin og við höldum okkur við þær ár sem að hafa náð þriggja stafa tölu. Tvær eru komnar í fjóra stafi.

Hér kemur listinn og er fyrst heildartalan miðað við miðvikudagskvöldið 18.7. Talan í sviganum er vikuveiðin og loks kemur tala frá sama tíma í fyrra til samanburðar.
Þverá/Kjarrá 1525 (339) – 1238
Norðurá 1125 (291) – 966
Urriðafoss 842 (124) -583
Miðfjarðará 759 (244) – 1202
Ytri Rangá 748 (347) -902
Haffjarðará 722 (235) -547
Langá 608 (262) -731
Eystri Rangá 555 (339) -201
Blanda 515 (98) -745
Elliðaárnar 458 (138) -503
Laxá í Kjós 403 (127) -344
Laxá í Aðaldal 278 (103) -317
Hítará 275 (119) -174
Laxá í Leir. 266 (90) -207
Brennan/Hvítá 250 (21) -190
Laxá á Ásum 241 (64) -375
Langholt/Hvítá E 236 (82) – Ekki gefið
Laxá í Dölum 229 (93) -125
Flókadalsá 219 (64) -239
Haukadalsá 210 (95) -165
Hofsá 178 (81) -134
Vatnsdalsá 169 (46) -215
Víðidalsá 168 (43) -315
Stóra Laxá 162 (60) – 205
Jökla 115 (77) -80
Búðardalsá 108 (38) -Ekki gefið
Straumfjarðará 104 (32) -127

Það er eitt og annað eftirtektarvert í þessum tölum. Til dæmis má lesa úr þeim að það hefur vantað allan kraft í smálaxagöngur í Húnavatnssýslunum. Eitthvað hefur það þó verið að rofa til, en tíminn segir til um hversu mikill sá bati verður.
Þá eru Rangárnar tvær á sitt hvorum staðnum. Ytri er að gefa alveg bærilega, en Eystri er miklu mun betri heldur en í fyrra og síðasta vikutala er ansi hraustleg. Miðvikudagurinn einn gaf hátt í 80 laxa og var áin þó ekki fullveidd.
Þá er skondið að sjá hversu samstiga nágrannaárnar Vatnsdalsá og Víðidalsá eru, með nánast sömu heildar- og vikutölur. Báðar að auki lakari en í fyrra.
Þá verður að skoða tölur úr Brennu og Langholti með ákveðnum fyrirvara. Ekki þeim fyrirvara að þetta séu eitthvað hæpnar tölur heldur vegna þess að þetta eru afmörkuð svæði í Hvítánum tveimur. Í Hvítá í Borgarfirði eru gjöful svæði sem eru ekki í tölunni, t.d. Straumar, Svarthöfði og Skuggi. Þá er víðar veitt á stöng í Hvítá eystri heldur en í Langholti. Þá má sjá af vikutölu í Brennu að fiskur stoppar þar ekki eins mikið og framan af, skilyrði verið það góð að laxinn hefur farið hratt upp í Þverá.
Þá er gleðilegt að sjá bata í Vopnafirði, sbr Hofsártöluna. Selá var eina áin sem vantaði á listann, en vikugömul tala úr henni benti til hins sama, að hún væri á góðri uppleið eftir nokkur erfið ár.