Knútur Magnús Björnsson með 97 cm hæng úr Hrútafjarðará í gær. Myndirnar eru af FB síðu Strengja.

Hrútan hefur farið nokkuð vel af stað og athygli hefur vakið hversu stórir fiskar eru þar á sveimi í bland við „venjulega“ tveggja ára laxa. Í síðasta holli kom til dæmis 97 cm hængur sem var 54 cm að ummáli. Mætti vel ímynda sér 20 pundara þar á ferð þótt ekki næði hann meternum.

Upprétt Kamazan þríkrækjan.

Í skeyti frá Þresti Elliðasyni leigutaka segir: „Hollið sem lauk veiðum á hádegi í dag(í gær) eftir tveggja daga veiði í Hrútafjarðará landaði fjórum löxum og missti sex. Hrútafjarðará var ein af fáum ám á landinu sem að hélt velli í fyrra og virðist vera nóg af stórlaxi í ánni. Það liggja fjórir risar í veiðistaðnum Stokki og í veiðistaðnum Pytt setti veiðimaður í stórlax sem að rétti upp kamazan þríkrækju eftir hálftíma viðureign. Veiðimenn sem tóku við á hádegi í dag eru svo strax búnir að fá einn 97 cm úr Rauðamelshyl sem að mældist 54 cm í ummál, það er því nóg um ævintýri í Hrútunni núna í upphafi vertíðar.“