Stórlax. Alviðra er fræg fyrir þá.

Starir og Landvernd gengu í dag frá samkomulagi til fimm ára um leigu Stara ehf á Alviðrusvæðinu í Soginu sem er neðsta svæði árinnar að vestanverðu og fornfrægt stórlaxasvæði.

Alviðra hefur verið á framfæri SVFR um árabil en félagið kaus að framlengja ekki og hafa samningarviðræður milli Landverndar og Stara staðið yfir um hríð. „Þetta stendur mér mér mjög nærri, ég nánast ólst upp þarna á bökkunum með pabba og mótaðist sem veiðimaður. Þess vegna var það mjög freistandi að heyra að SVFR ætlaði ekki að halda starfi sínu þarna áfram. Þetta var mikill gleðidagur,“ sagði Ingólfur Ásgeirsson hjá Störum, en félagið er fyrir með fjölmörg laxveiðisvæði á sínum snærum, Víðidalsá, Þverá/Kjarrá, Brennutanga, Straumana, Langadalsá og fleiri.

Ingólfur sagði að stöngum yrði fækkað í Alviðru úr 3 í 2 og að aðeins yrði veitt á flugu og öllu sleppt eins og tíðkast á öðrum svæðum í Soginu. „Sogið á mikið inni, það þarf bara að hjálpa því að komast aftur af stað,“ sagði Ingólfur. Hann bætti líka við að bleikjuveiði yrði á svæðinu í apríl og mai, síðan tæki við hefðbundinn laxveiðitími. Svæðið verður selt í stökum dögum eða meira, byrjað á miðjum degi.

Prýðis veiðihús er við Alviðru, en var komið til ára sinna. Ingólfur segir að Landvernd hefði í seinni tíð varið talsverðum fjármunum í að taka húsið í gegn og nú væri það í fínu standi.

Þeir sem til þekkja vita að Alviðra er fornfrægt stórlaxasvæði, en hefur verið fremur dauft hin síðari ár. Eins og Sogið allt. En þannig var á liðnu sumri að fáir fóru, en þeir sem gerðu það fengu afla. Það var talsvert af laxi og eitt og annað sem benti til að svæðið sé að koma til. Eins og Sogið allt.