Jón Þorsteinn Jónsson, Nuno Alexandre, Eyrin
Jón Þorsteinn Jónsson og Nuno Alexandre Servo með einn flottan af Eyrinni. Mynd: Stolin af FB.

Byrjunin í Norðurá hefur farið fram úr björtustu vonum. Það átti að vera lítið af stórlaxi, en það er bara slatti af honum! Einn 102 cm kom úr ánni í morgun, 17 komnir á land á hádegi og margir sloppið.

Við náðum tali af Einari Sigfússyni sölustjóra Norðurár  nú rétt áðan þar sem hann var með eiginkonunni Önnu Sigþórsdóttur að kasta á Hornfljótið efst í Stekknum.“Hér eru allir kátir, þetta hefur gengið vel og það er grálúsugur lax að skjóta upp kollinum út um allt svæðið. Það er meira að segja farið að bera á smálaxi sem er óvenju snemmt og veit bara á góða smálaxavertíð. Hún frú Anna landaði einum 102 cm í morgun í Laugarkvörn að austan, notaði mini Snældu, en annars höfum við mest verið að nota hits og litlar Sunrey með flotlínum. Það hefur dugað vel hingað til, en henni datt í hug að þyngja aðeins og þá kom þessi stóri. Viðureignin var hörð og laxinn leitaði ítrekað niður úr Laugarkvörn og hefði það tekist þá hefði hann farið undir kláfinn og þá hefði verið illt í efni. En Anna brást við því með því að gefa laust þannig að línuslakinn fór niður fyrir laxinn sem hélt þá að verið væri að toga í sig þaðan. Það dugði, hann fór alltaf upp aftur og loks tókst að landa honum. Því miður er engin mynd, síminn gleymdist í bílnum,“ sagði Einar.

Blanda opnar á morgun og hafa Árni Baldursson leigutaki og Höskuldur Birkir Einarsson lögga á Blöndósi og einn helsti Blöndusérfræðingurinn, ítrekað sé nýja laxa á lykilstöðum, þannig að búast má við skemmtilegum fréttum af vettvangi á morgun. Brennan var opnuð í morgun, sjá aðra frétt, en þar var dreginn 104 cm lax á undan opnuninni…..

Eins og kunnugt er hófst veiði í ánni í gærmorgun og komu alls 7 laxar á land en 10 sluppu. Þar af slitu fjórir og voru glímurnar upp í tuttugu mínútur þannig að þetta voru engin smá peð. Í morgun var tíu landað og níu töpuðust.