Marinó Guðmundsson, Vatnsá
Marinó Guðmundsson með stóra hrygnu úr Hauksholu í Vatnsá...

Vel hefur verið að að veiðast í Vatnsá í Heiðardal ofan Mýrdals í sumar, þ.e.a.s. seinni part sumars,þetta er mikil síðsumarsá og hún fór loks að gefa að viti um miðjan ágúst. Það er góður slatti af laxi í ánni og meira af sjóbirtingi en oft áður. Þetta stefnir í „dæmigert Vatnsár sumar,“ eins og umsjónarmaðurinn Ásgeir Ásmundsson orðar það.

„Fiskur er dreifðari en síðustu sumur, sem er jákvætt og það er meira af sjóbirtingi í bland við laxinn sem er líka jákvætt, því hann er rígvænn,það hafa komið nokkrir upp að 80 cm og það eru engin smá tröll,“ sagði Ásgeir í samtali við VoV í kvöld. Laxarnir í veiðibók eru komnir í 160 og Ásgeir reiknar með að sú tala fari eitthvað yfir 200 áður en yfir líkur.