Selma Björk, Hólmasvæðið, Skaftá
Svakalegur hængur, Selma Ísabella með 89 cm hæng af Hólmasvæðinu.

Við höfum greint frá því að undanförnu að sjóbirtingur sé í startholunum og byrjaður að ganga í Vestur Skaftafellssýslu fyrir all nokkru og að þungi sé kominn i göngur. Hér er meira….risafiskar á Hólmasvæðinu!

Ólafur Guðmundsson, Hólmasvæðið, Skaftá
Ólafur Guðmundsson með 87 cm hæng, þessi tröll úr Hólmasvæðinu eru stærstu birtingar sem VoV hefur haft sðpurnir af, en ef að lesendur vita af stærri tröllum væru ábendingar vel þegnar.

Við höfum sagt frá flottri veiði í Eldvatni, Tungulæk, Jónskvísl og víðar. Venjulega byrjar birtingur að ganga seint í júlí, smávegis, og síðan bætir smátt og smátt í út ágúst. September og október hafa svo verið aðal mánuðirnir, en verið getur að þetta sé að færast aðeins fram. Reyndar er löngu vitað að birtingur er kominn á Hólmasvæðið og Vatnamótin í Skaftá seint í júlí og í ágúst, sem sagt löngu áður en hann gengur af krafti í bergvötnin. Það er ekkert  öðru vísi núna, en samkvæmt nauðakunnugum á þessum slóðum þá er mikið af fiski þarna núna og hefur verið að undanförnu. Sem veit á gott fyrir framhaldið, bæði þar, og í ánum efra, Geirlandsá, Fossálum, Hörgsá, Tungulæk.

Selma Björk, Hólasvæðið, Skaftá
Selma Ísabella með 89 cm hrygnu af Hólmasvæðinu í vikunni.

Ólafur Guðmundsson hefur verið lengi einn af okkar helstu frétta- og álistgjöfum um sjóbirtingsgöngur á svæðinu. Hann hefur stundað talsvert Hólmasvæðið í Skaftá ásamt Selmu Björk Ísabellu Gunnarsdóttur. Þau hafa verið í veislu að undanförnu. „Það er allt fullt af fiski þarna niður frá og við höfum veitt vel. Þetta er neðan við Vatnamótin en samt eru skil bergvatns og jökulvatns. Það eru mjög stórir fiskar þarna í bland við aðra, ég er búinn að fá t.d. tvo 87 cm og einn 85 cm. Selma hefur gert enn betur og landað tveimur 89 cm“.

Fiskar af þessari stærð eru allt annar handleggur heldur en í vorveiði. Getur munað 1-2 kílóum eða meira í vigt. Menn hafa veitt 86 cm að hausti sem hafa verið yfir 18 pund og eru það þeir sverustu. Þessir fiskar, þeir stærstu alla vega, eru líklega allir nálægt tuttugu pundum.