Sólheimafoss með fiskveginum nýja. Myndin er frá Hreggnasa, leigutaka árinnar.

Opnaður hefur verið fiskvegur í Sólheimafossi í Laxá í Dölum. Laxá þarf ekki að kynna, hún er einfaldlega ein af bestu laxveiðiám landsins. Fossinn er um 25 kílómetra frá sjó og við þessa breytingu bætast við sex kílómetrar hlaðnir afbrags búsvæðum. Nú í haust varð strax vart við að lax væri að nýta sér fiskveginn og ganga inn á áður ónumin lönd.

Við skulum að öðru leyti gefa Sigurði Má Einarssyni fiskifræðingi á Hafró orðið, en hann hefur sent frá sér stutta skýrslu, enda kom hann að málinu ásamt fleirum.Sigurður:

Laxá í Dölum, Hreggnasi
Við Laxá í Dölum. Myndin er frá Hreggnasa.

„Haustið 2019 var nýr fiskvegur tekinn í notkun við Sólheimafoss í Laxá í Dölum, en Laxá er fjölmörgum veiðimönnum vel kunn fyrir mikla aflasæld á laxi. Sólheimafoss er í um 25 km fjarlægð frá sjó. Fossinn er rúmlega 4 metrar að hæð, en ákjósanleg búsvæði til laxahrygningar og uppeldis á ungviði auk veiðistaða er að finna ofan hans. Þannig er talið að um 6 km búsvæði opnist ofan við fossinn sem geti aukið framleiðslugetu vatnasvæðisins um 15 – 20% þegar að landnámi lax er lokið.

Fiskvegurinn var hannaður af Vífli Oddssyni verkfræðingi en Vífill hefur hannað fjölmarga fiskvegi hérlendis. Framkvæmdina annaðist fyrirtækið Kolur í Búðardal og var fiskvegurinn útbúinn með því að móta klöppina með fleyg og þannig búin til þrep 2 -2,5 m að lengd með 50 cm hæðarmun. Með þessu móti ber minna á fiskveginum í umhverfinu miðað við steypta fiskvegi og umhverfi við Sólheimafoss er minna raskað en ella. Lax fór strax að ganga fossinn haustið 2019 og framkvæmdin virðist hafa gengið að óskum.

Nú hafa verið reistir á bilinu 75-80 fiskvegir í íslenskum straumvötnum sem opnað hafa um þriðjung af því búsvæði sem opið er fyrir lax og aðra göngufiska á Íslandi. Sambærilegar framkvæmdir hafa því haft mikil áhrif á stofnstærð laxa á Íslandi.“