
Alls komu 9 laxar á land úr Selá í morgun og var þó varla staðið við nema um það bil hálfa vaktina. Áin er afar lífleg neðan við Selárfoss og lax var að sjást og veiðast víða. Talsvert hafði sést af laxi síðustu viku-tíu daga, en allir laxarnir í morgun voru lúsugir.

„Þetta var flott byrjun og veit á gott,“ sagði Gísli Ásgeirsson í samtali við VoV og Jim Ratcliffe, sem er að opna ána ásamt börnum sínum tók í sama streng, áin væri fullkomin, vatnsmagn, fiskimagn miðað við byrjun og veðrið, en það hefur kólnað mikið í Vopnafirði eftir þó nokkuð langa hitabylgju með sólskini, en nú er þungskýjað með þéttri golu.

Fyrstu laxarnir veiddust í Fosshylnum eins og við greindum frá í morgun, en seinna veiddust fleiri laxar þar og einnig á Fossbreiðu og í Efri Sundlaugarhyl. Allir lúsugir og mældir 70 til 78 cm.
            
		








