Guðrún Una
Guðrún Una Jónsdóttir formaður SVAK með fallega bleikju úr Hörgá fyrir skemmstu.

Almennt er að heyra að sjóbleikjuveiði hafa dalað nokkuð Norðanlands- og Austan, en þó hafa margir fengið skemmtilega veiði og stórar bleikjur og á það síðarnefnda sérstaklega við um Eyjafjarðará. En Stangaveiðifélag Akureyrar er mikið í sjóbleikjunni og við spurðum Guðrúnu Unu Jónsdóttur, formann félagsins um gang mála í sumar.

Guðrún sagði: „Bleikjuveiðin undanfarin ár hefur dalað hér norðan heiða eins og víðar. Hörgáin tók þó nokkurt stökk uppá við í fyrra með yfir 700 skráðum bleikjum. Silungsveiðin hjá okkur í ár er ekkert til að hrópa húrra fyrir ef rýnt er í rafrænu veiðibókina okkar og er sennilega undir meðallagi en vonandi eiga menn eftir að færa inn aflatölur frá sumrinu . Svo er veitt í flestum ám framundir næstu mánaðarmót þannig að enn er von um að veiðitölur hækki. Haustbleikjan kemur vonandi sterk inn.

Hörg+a, sjóbleikja, Guðrún Una
Fallegur afli úr Hörgá. Mynd Guðrún Una.

Sjálf er ég búin að heimsækja árnar okkar í sumar með misjöfnum árangri. Stundum fær maður bingó meðan aðrir dagar gefa minna en það er það skemmtilega við bleikjuna, hún getur verið í brjáluðu tökustuði eða gefið manni langt nef. Ég fór nýlega í Hörgá svæði 4 b sem er efsta svæðið í Hörgárdalnum og hitti á vinkonu mína í tökustuði, 13 tökur á stuttum tíma og 11 bleikjum landað.

Sala veiðileyfa hefur gengið vel í ár, bæði í forsölu til félagsmanna og í almennri sölu. Leyfin eru seld á söluvef Veiðitorgs sem hentar félaginu vel. Greinilegt er að menn eru farnir að sækja meira í silungsveiðileyfi en áður enda verðlagning á laxveiðileyfum há. Veiðina skrá veiðimenn í rafræna veiðibók á vef Veiðitorgs og SVAK sem er gott fyrirkomulag sem gefur góðar upplýsingar.“

Þó að Guðrún gefi bleikjuveiðinni í sumar ekki háa einkun má glöggt sjá í rafrænum skráningum á Veiðitorgi.is að margir hafa gert góða veiði og farið með heim í soðið. Þá sjást stórir fiskar innan um, eins og tvær 7 punda bleikjur í Ólafsfjarðará og önnur slík í Fjarðará í Hvalvatnsfirði. Þá hafa komið tíðar fréttir af risableikjum í Eyjafjarðará, þar sem veiðin hefur reyndar verið nokkuð góð þó að áin sé langt frá þeim hæðum sem hún fyrrum. En hún hefur þó komið talsvert til baka með góðri gjörgæslu. svo sem sjá má einnig á rafrænu skráningunum á Veiðitorgi.