Vatnsdalsá, sjóbleikja
Erlendur veiðimaður með stóra sjóbleikju af silungasvæðinu. Mynd er fengin frá vatnsdalsa.is

Silungasvæði Vatnsdalsár er nú komið í hendur Péturs Péturssonar sem leigt hefur laxasvæði árinnar um langt árabil. Um þetta var samið nýlega, í hönd fer „tilraunaár“, en Pétur reiknar með að framhald verði á samstarfinu.

Pétur sagði í samtali við VoV í dag að það hefði komið sér skemmtilega á óvart hversu lítið hefði verið um að holl hættu við þar sem tekið var fyrir maðkveiði. Spúnn er aðeins leyfður í mai og september á þeim forsendum að yfirleitt er frekar auðvelt að sleppa laxi af spún. En ekki maðki. Í mai er það niðurgöngulax, í september hrygningarfiskur, en jafnan veiðist talsvert af laxi á silungasvæðinu…aðal aflinn er sjóbleikja og í vaxandi mæli sjógenginn og staðbundinn urriði. „Það voru sárafá holl sem hættu við og það fylltist fljótt í þau göt sem mynduðust,“ sagði Pétur.

                                          Kastnámskeið í Vatnsdalnum?

Pétur bætti við að hann sæi fyrir sér skemmtileg tækifæri með silungasvæði Vatnsdalsár, því það er með afbrigðum gjöfult á margar tegundir. Frábært veiðisvæði. Til að mynda væri til skoðunar að athuga með veðurfar í apríl, hvort að það myndi leyfa að efnt væri til 2 daga flugukastnámskeiða þar sem kennt væri ekki síður á ánni sjálfri þar sem „bullandi sjens“ væri á því að fiskur gripi fluguna. Eitthvað annað en gólf inni í íþróttahúsi með fullri virðingu fyrir því. Sagði Pétur að þetta yrði skoðað á næstu dögum og vikum. Stutt í vorið.