Það er alltaf eitthvað nýtt sem rekur á fjörur stangaveiðimanna. Umfjöllunarefni okkar hér er reyndar ekki nýtt, það hefur verið leynivopn leiðsögumanna í Vopnafirði í þó nokkur ár, en er nú komið í sölu. Smærri og enn þyngri keilufluga sem sekkur hraðar og styggir minna.

Það eru þeir félagar Sigurður Héðinn (Siggi Haugur) og Ingólfur Helgason sem starfrækja haugur.is og Icelandicflyfishermen.com sem að standa að málinu. Veiðislóð hitti þá félaga til að grennslast um nýju gripina. „Þetta er kallað Hexagon sem þýðir sexkantur,“ sögðu þeir félagar og sýndu gripinn. Um er að ræða keiluhaus með sex köntum, hann er úr tungsten og er einfaldlega þyngri heldur en fyrri keilur sem verið hafa í notkun. „Þeir koma í 3,5 , 4 og 5 mm og þar sem keilan er efnismeiri þó hún geti varla talist stærri en það sem áður hefur sést þá gefur hún færi á því að flugan er mun nettari miðað við þyngd. Það þýðir að hún fer hraðar niður og styggir um leið minna. Margir staðir eru illveiðanlegir vegna straumþunga og dýptar, menn eiga í vandræðum með að koma flugunni nógu hratt niður áður en að hún er þotin yfir laxinn. Þeim veiðistöðum fækkar umtalsvert með þessari útgáfu,“ segja Sigurður og Ingólfur.

En þetta er ekki nýtt sögðuð þið?

„Nei raunar ekki. Valgarður Ragnarsson, leigutaki Húseyjarkvíslar og leiðsögumaður við Hofsá og víðar, var líklega sá sem notaði þetta fyrstur eftir því sem við best vitum og síðar aðrir leiðsögumenn fyrir austan. Um tíma var erfitt að fá þetta, ef það var þá hægt. Við vissum líka um erlendan veiðimann sem veiðir víða og hann var með svona flugu. Hann skildi eitthvað af þeim eftir og í allnokkur ár hafa þessar flugur verið leynivopn leiðsögumanna í Vopnafirði og það hefur veiðst vel á þær bæði í Hofsá og Selá.

Nú er aftur hægt að fá þessa þyngri sexkanta tungsten hausa. Við leggjum mikið upp úr því að koma jafnt og þétt með nýjungar á almennan markað og  ákváðum við að slá til með Hexagoninn. Það var í sjálfu sér ekki erfið ákvörðun, við höfum séð sjálfir hversu magnaðar þessar flugur eru.“

Þær eru þyngri, eru menn þá ekki stöðugt í festum?

„Það er undir veiðimönnum sjálfum komið og það er ekki ráðlagt að nota þyngri túpur hverju sinni en aðstæður leyfa.“

Hvaða flugur munu koma í þessari útgáfu?

„Við erum þegar komnir með fjórar útgáfur af Frances, alsvarta, appelsínugula, svörtu með gula hausnum og þá rauðu klassísku. Svo verða fleiri útfærslur þegar fram líða stundir.“

Ekki hnýtið þið þetta sjálfir, svona fjöldaframleiðslu?

„Nei við myndum aldrei komast yfir svona frameliðslu þó Haugurinn kunni að hnýta! Það sem við höfum lært í þessum bransa er, að veiðimenn eru upp til hópa að leita eftir gæðum. Allar okkar flugur á haugur.is eru hnýttar hjá Jóni Inga Ágústssyni í Tælandi en flugurnar frá honum slá alla aðrar út hvað gæði varðar að okkar mati. Þegar reyndir veiðimenn horfa á flugu til að velta gæðunum fyrir sér þá horfa þeir á hausinn. Það fer ekki á milli mála hvort hann er hnýttur vel eða illa. Ef flugan er illa hnýtt þá er hún ljót. Ljót fluga getur auðvitað gefið fína veiði, en menn vilja veiða með fallegum flugum. Jón Ingi er á alveg sér hillu með þetta. Við leggjum sem fyrr segir mikið upp úr gæðunum og flugurnar okkar eru líklega ekki þær ódýrustu en gæðin eru mikil. Öllum Hexagon túbum sem og öðrum túbum fyglja svo hágæða önglar.“

Haugur, stáltúpa
Stáltúpa, Haugur.

Og það er annað sem mætti nefna af reynslu okkar af flugusölu. Fyrir utan gæðin leita menn líka í upprunann, „orginalinn“. Það hefur komið skemmtilega á óvart. Það er hægt að fá ýmsar útgáfur af Haugnum víða en ótrúlega margir leita beint til okkar eftir að hafa reynt eftirlíkingar!“

Þó umfjöllunin hér snúist um þyngdar flugur þá er langmest af úrvali þeirra á haugur.is smáflugur og sitthvað annað svo sem léttar túbur eins og skáskorinn Skuggi. Í fyrra komu t.a.m. léttar og nettar stáltúbur á markaðinn hjá þeim og þetta árið koma þær í fleiri gerðum og stærðum, s.s. Black Sheep, Haugur, Von, Skuggi, Silver Sheep og Collie dog.“