Það gerist margt skrýtið á veiðislóð. Skrýtnar uppákomur, tilfallandi tilviljanir. Magnað hvað margt er með ólíkindum. Þannig var lítið atvik hjá þeim sem voru að loka Straumfjarðará um helgina.
Hollið byrjaði á föstudag. Áin var í vexti og laxinn ekki í stuði eins og títt er þegar áin vex. En þarna voru sjóbirtingar og þegar þremur hafði verið landað í einum hylnum, tók sá fjórði fluguna í tökunni. Það kom negling, fiskurinn stökk og var af. Taukurinn var farinn, hvað sem olli því, galli á taumnum eða hvað, taumurinn fór, flugan með og að sjálfsögðu birtingurin.
Á laugardag var aftaka slagveður vestast á Snæfellsnesi og áin „fór af stað“ eins og leigutakinn Ástþór Jóhansson orðaði það. Hún rauk upp í kakó og flóð á innan við klukkutíma og var svo gott sem óveiðandi allan laugardaginn.
Á sunnudaginn var áin hins vegar komin í góða stöðu, vatnið sjatnað og orðið tært. Á hálfum degi settu menn í sjö laxa en lönduðu aðeins tveimur. Það vantaði einn á land í viðbót til að jafna veiði síðasta sumars. En það var ekki það sem sat eftir.
Félagarnir voru við hylinn við Nýju brú, þar sem birtingurinn hafði slitið tauminn. Settu þar í fimm laxa sem sluppu allir. Þannig er það bara stundum. En svo var það, að félagi þess sem hafði misst birtinginn á föstudaginn fékk skringilega töku. Eiginlega ekki töku, en samt töku. Það snerti eitthvað og svo fór allt af stað. Þokkalega vænn birtingur, 3-4 pund fleytti kerlingar niður breiðuna og svo var hann skyndilega af. Bölvandi, spólaði félaginn inn á hjólið og þegar línan var komin, sá hann eitthvað hangandi á flugunni. Það reyndist við nánari athugun vera önnur fluga, sú sama og fiskur hafði slitið á föstudagskvöldinu. Sem var grænn og svartur Friggi, hálftomma.












