Við höldum áfram og hér er komin fimmta greinin þar sem við reynum að svara margvíslegum spurningum sem vakna á bökkum vatnanna.
Dumbungur/skúrir, vatnshæð mikil en í rénun
ÁH: Þetta eru erfið skilyrði og laxinn tekur oft illa. Eins og ég nefndi þá dettur takan oft niður þegar hámarki vatnavaxta er náð eða um það bil að nást. Mikið af laxinum er enn á fleygiferð og ekki búinn að finna sér stað. Við þessar aðstæður er það bara dugnaðurinn sem gildir. Nýta tímann og reyna víða.
HE: Draumaaðstæður laxveiðimannsins. Hér kemur flotlínuveiðin aftur inn og lax byrjar að leita aftur á hefðbundnari legustaði.
SS: Er nokkurn vegin á sömu nótum hér og í fyrri spurningu. Ítreka þó að fiskur getur verið afar langt frá sínum gamla stað og því miður detta margir í þá gryfju að byrja bara við skiltið og halda sig þar. Brotið á hylnum getur verið 200 metrum neðar og fiksurinn allur farinn þangað
gg: Mjög góður tími, sérstaklega ef að áin hefur ekki skolast mikið. Túpur eru hér málið og líkt og í tilvikinu á undan, þá þarf að leita laxins langt neðan við skiltin. Varast ber þó að ofnota túpur og sniðugt að smækka fluguna þegar fiskur er fundinn.
Áin að minnka eftir flóð og skol
ÁH: Þetta er „præmið“ sem allir bíða eftir að lenda í. Margir laxar hafa tyllt sér á nýja staði og laxar sem færa sig milli staða eru tökulaxar þegar þeir hafa á annað borð ákveðið að doka við. Lax sem hefur kannski hangið vikum saman í hyl og ekki sinnt neinu, verður allt í einu tökufiskur. Hann er samt ekki endilega kominn á gömlu hefðbundnu staðina, enn þarf e.t.v. að leita hans á brotum.
HE: Þetta er einn mesti og besti tökutíminn og getur gefið miklar aflahrotur. Algengustu mistökin eru að minnka ekki flugurnar því viðbúið er að þyngri veiðarfæri hafi verið notuð í undanförnu flóði. Mikil og langvarandi túbuveiði dregur mjög úr tökugleði laxins. Hér gildir í raun að nota sömu veiðiaðferð og ef vatn er með minna móti.
SS: Þetta er frábær tími því það fer allt á fleygiferð. Það er þekkt í smærri og miðlungsstórum ám að fiskurinn er tregur til að taka af skarið og ganga í ána ef að vatnið er lítið. Hann fírast allur upp við flóðið, hikar samt á meðan það mesta gengur yfir, en flýtir sér svo þegar vatnið er að hrapa aftur, til að missa ekki af strætó. Þegar lax er að ganga er þetta hörkutími og fiskur tekur vel og þetta fírar líka upp í laxi sem legið hefur lengi í hylnum sínum um og eftir mitt sumar. Margir eru á fullu í túpunum þegar þessi skilyrði eru fyrir hendi, en það er alls ekki nauðsynlegt, nema að maður sé að leita að laxinum, þá eru þær betri. En ef þú veist af fiski þá er ekkert síðra að vera með litlar flugur. Sumir virðast halda að þeir þurfi túpur til að laxinn sjái fluguna, en sannleikurinn er sá að þessi dýr eru ótrúlega næm fyrir hinu smæsta í umhverfi sínu. Maður hefur séð lax snara sér frá öðrum bakkanum nánast yfir að hinum til að skoða eða grípa flugu í smæstu númerum.
gg: Frábær tími og mikið til það sama í gildi hér og í liðunum hér á undan. Stærri flugur, sökktaumur. En ef fiskur er fundinn á vissum bletti má alveg smækka fluguna án þess að það dragi úr möguleikum. Fiskur er hér ekki enn kominn aftur á gamla legustaðinn en byrjaður að ná áttum aftur eftir flóðið.
Flugnaval eftir hitastigi í árvatni……
ÁH: Meginreglan er því kaldara því stærra og samkvæmt því hitsar maður í hlýrra vatni, veiðir hægar og dýpra í meiri kulda. Ég kaupi hins vegar ekki þetta „stærra“ í kenningunni því aðalatriðið í mínum huga er að vera með fluguna á réttum stað því fiskurinn er ekki mikið að sækja fluguna í kulda. Hún þarf því ekki endilega að vera stór þó að stór fluga geti gengið. Sjálfur er ég mikið fyrir að nota bara kvart-tommur“
HE: Einhverjar leiðinlegustu aðstæður sem veiðimaður fær er þegar að vatnshiti er hærri en lofthiti. Þetta á sérstaklega við þegar að skyndileg veðurbreyting verður t.a.m á Faxaflóasvæðinu eftir heitan dag, og vindur blæs frá hafi með vestanátt.
Hins vegar er þumalputtareglan að í köldu veðri og lágum vatnshita veiðir maður hægar. Við 8-14 gráður breytir hraðinn litlu, en þegar að vatnshiti og lofthiti verður aftur mjög hár, hægir maður yfirleitt á flugunni á nýjan leik. Við lágan vatnshita hefur mér fundist dökkar flugur virka mun betur, en máski á það sér aðrar skýringar þar sem yfirleitt er þungbúið við slíkar aðstæður.
SS: Þumalputtareglan er stærri flugur í kaldara veðri, smærri flugur eftir því sem hlýrra er. Í kulda veiðir maður hægt, í meiri hita herðir maður á flugunni, en verði mjög heitt þarf að hægja ferðina aftur. Það eru engu að síður endalaus frávik frá þessum svokölluðu reglum og góð regla í laxveiði er að vera ekki of upptekinn af reglum, endilega að brydda upp á einhverju sem að fer gegn norminu.
gg:Megin reglan er stærri fluga og sett djúpt með sökktaum í köldu vatni. Smækka fluguna síðan og veiða frekar með flotlínu þegar hlýnar. Fáir veiðimenn ganga þó með hitamæli á sér þannig að þetta þarf oft að meta með nefinu. Svo er sjálfsagt að muna að meginreglan þarf ekki alltaf að vera það eina rétta. Þekkt dæmi eru um að veiðimenn sem veiddu í mjög köldu vatni í byrjun júní í Norðurá fengu ekki högg fyrr en allt var fullreynt að þeirra mati, þ.e.a.s. allt nema „hits“, þegar það var reynt, var sett í laxa.
Tvö trix sem hafa reynst mér vel:
1)Fyrir kemur að ofnotkun á stórum túpum á sökktaum valdi því að fiskur tekur grannt. Aðalatriðið er að koma flugunni niður, ekki endilega flugustærðin. Ég hef oft sett í og haldið löxum sem tóku smáar flugur í köldu vatni, en voru settar djúpt með sökktaum og veiddar hægt líkt og hin týpíska túpuveiði.
2)Þetta kom nokkrum sinnum fyrir á þeim árum að ég notaði Frances. Í köldu vatni festi laxinn sig gjarnan illa á þessa flugu og þegar grunur lék á því að hann væri í raun bara að glefsa í skottið á henni, var ráðið að klippa skottið af og veiða fluguna skottlaust. All nokkrum sinnum var óðar búið að festa í fiski.












