Gunnar Bender, Sportveiðiblaðið
Gunnar Bender ritstjóri Sportveiðiblaðsins til 35 ára.

Sportveiðiblaðið kom út fyrir skemmstu sem væri ekki í frásögur færandi nema að um var að ræða 35 ára afmælisútgáfu. Það er mikið afrek að halda úti jafn sértæku tímariti svo lengi, þannig að við heyrðum í ritstjóranum Gunnari Bender…

Hvað rak þig útí þessa útgáfu forðum daga?

..Þegar við hófum útgáfuna var aðeins  Veiðimaðurinn til staðar og  með mér í fyrstu blöðunum voru  Steingrímur Steingrímsson og Þröstur Elliðason. Okkur var sagt að það væri ekki gáfulegt að fara í slag við það blað . Hann myndi ekki enda vel. Við hófum útgáfuna og gáfum út eitt blað fyrsta árið,  meðal annars viðtal við Gulla Bergmann og Sveinbjörn Beinteinsson. Og það blaðið gekk og svo komu tvö blöð næsta ár. Síðan erum við búnir að gefa út 80 blöð og árin orðin 35 með breyttu lið í gegnum tíðina.

Var þessu brölti þín strax tekið vel?

,,Lesendur tóku okkur vel við fengum myndir og annað sent í miklum mæli.  Í öðru blaðinu tókum við viðtal við Björn J Blöndal sem Veiðimaðurinn hafði reynt að fá lengi, við mættum á staðinn og fengum viðtal við þann snilling.  Viðbrögðin voru góð alla tíð. 35 ár er langur tími og þetta hefur verið skemmtilegt en stundum erfitt eins og öll útgáfa á Íslandi.“

Alltaf gengið allt í haginn eða hefur gengið á ýmsu?

,,Já ýmislegt hefur gengið á en allir nema held ég einn  aðili hefur sagt nein við viðtali sem verður að teljast gott. Höfum tekið um 150 viðtöl við veiðimenn um allt land.“

Hvað hefur verið mest gefandi við þessa útgáfu?

,,Hitta fólk og ræða við það  um allt land. Fyrsta blaðið sem við gáfum út seldum við í hús á Akranesi og Borgarnesi, það gekk vel. Við höfum verið sýnilegir alla tíð sem skiptir öllu máli.“

Aldrei hvarflað að þér að hætta þessu og fara að gera eitthvað annað?

,,Nei aldrei, það er á hreinu. Á Veiðum tímaritið var sett til höfuðs Sportveiðiblaðinu og átti að klára það. Við kláruðum Á Veiðum á nokkrum árum.“