Fjöldi lesenda okkar muna eflaust eftir útgáfu Veiðislóðar sem veftímarit, en alls komu út 15 tölublöð yfir fjögurra ára tímabil. Það hefur verið í hvíld og gerjun í ríflega tvö ár. Niðurstaðan er fengin.

Veiðislóð verður núna „vefur inni í vef“,  þ.e.a.s. nýr hluti af Vötn og veiði verður læst áskriftarsvæði og þar inni verða greinar og viðtöl sem verða í örri uppfærslu. Eftir sem áður verða fréttir þó fríar eins og verið hefur.

                              En hvers vegna gerum við þetta?

Veftímaritið Veiðislóð var fallegt og metnaðarfullt. Það var frítt og til þess að standa undir reksri þess þurfti sölu á auglýsingum eins og títt er um frímiðla. Það gekk hins vegar ekki upp. Með áskriftarsölu  viljum við því athuga hvort lesendur eru til í að taka meiri þátt í útgáfunni og kaupa áskrift á hóflegu verði.  Við munum leggja okkur alla fram um að halda úti metnaðarfullum vef með fjölbreyttu efni þannig að áskrifendur fái mikið fyrir aurinn sinn.

Efnistök Veiðislóðar nú verða að mörgu leyti svipuð því sem lesendur fengu að kynnast á sínum tíma. Þarna verða viðtöl við veiðimenn- og konur, efni um flugur og fluguhnýtingar, veiðistaðakynningar, veiðisögur, viðtöl og greinar um rannsóknir og lífríki, efni sem varpar ljósi á fyrri tíma og villibráðareldhúsið gamla og góða. Síðan er ekki ólíklegt að fleira detti inn, því hugmyndavinnu er fjarri því lokið. Henni lýkur aldrei.

                       Hvers vegna ættu menn að gerast áskrifendur?

Við erum hér fyrir ykkur og erum frjálsir og engum háðir, eigum okkar fyrirtæki sjálfir. Efnistökum er því ekki stjórnað af öðrum en okkur. Efnið verður því ekki markaðsdrifið. Efnið er fjölbreytt og metnaðarfullt og það verða hraðar og stöðugar uppfærslur.

                           Með von um farsælt samband og samvinnu

                           Útgefendur votnogveidi.is og veidislod.is