Það voru einkum efnaðir Bretar, gjarnan hershöfðingjar eða marskálkar sem hingað komu fyrstir til stangaveiða og voru sumir þeirra býsna snemma á ferðinni, jafnvel á seinni hluta 19.aldar. Þetta hafa verið miklar ævintýraferðir, langar skipaferðir hingað til lands, vegleysur og vesen til sjávar og sveita. Aðbúnaður alla vegana og óvissan oft mikil. Slíkar ferðir hafa bæði kostað mikið og krafist gríðarlegrar skipulagningar. Samt sem áður komu allmargir þessara manna hingað margítrekað og sumir voru hér fastagestir um langt árabil. Það þurfti heila heimsstyrjöld, þá síðari, til að skera á þráðinn hjá sumum þeirra. Einn þeirra sem hingað komu var hershöfðingi hennar hátignar R.N Stewart, en ferill hans á íslandi spannaði frá 1912 til 1947. Veiddi hann í fjölmörgum íslenskum ám og var með eina þeirra, Hrútafjarðará, á leigu til fjölda ára.

Stewart skrifaði bækur um reynslu sína á bökkum vatnanna. Ein þeirra bóka heitir Rivers of Iceland sem út kom árið 1950 í samvinnu við Ferðamálaráð Íslands. Þessi bók er fyrir löngu ill- ef ekki beinlínis ófáanleg. En fyrir meira en 30 árum fann ritstjóri VoV þrjú eintök í hillum Bókaverslunar Snæbjörns Jónssonar í Hafnarstræti. Festi umsvifalaust kaup á einu þeirra og á enn í dag. Verið bókin á náttborðinu síðan á þrettándanum. Ætli það sé ekki í tíunda skiptið sem ég les bókina og alltaf er hún jafn skemmtileg og mikill aldarspegill. Það væri ekki úr vegi að renna í gegnum bókina og þýða nokkrar vel valdar málsgreinar og sögur og sagnir úr bókinni. Það koma fram m.a. kostulegar lýsingar á Íslendingum fyrri hluta 20.aldar, mergjaðar veiðisögur og kenningar og vangaveltur höfundar um umhverfið, lífið og tilveruna á bökkum vatnanna. Ekki er ætlunin að hér flæði stór og mikil þýðing, við stingum niður fæti hér og þar. Og gerum það kannski aftur í seinni tíma tölublöðum, því hér er margt skemmtilegt að skoða.
Í inngangskafla er þessi setning: -Í þeirri á sem ég þekki best (væntanlega Hrútan) gengur enginn fiskur fyrr en í síðustu viku júní, og hrygning hefst um það bil 15.september. Henni er lokið um 15.október og í nóvember er allur lax á bak og burt úr ánni”
Í sama kafla er þessi lýsing: -Íslenskir stangaveiðimenn eru afar hrifnir af stórum spónum, en það verður að viðurkennast, að þeir veiða vel á þá. Ég er lítt hrifinn af þeim því ofnotkun þeirra fælir fiskinn í þessum fallegu tæru ám. Það eru kannski fordómar af minni hálfu, en ég held að fáir breskir stangaveiðimenn hefðu geð í sér að veiða í hyl sem Íslendingur er nýbúinn að skarka í.”

Og síðan bætir hann við í framhaldinu: -Allir Íslendingar sem ég hef fyrirhitt hafa verið miklir sportmenn og gestrisni þeirra er viðbrugðið. Og þeir eru alls ekki öfundsjúkir veiðimenn. Málið er einfaldlega, að hylur sem laminn hefur verið með þeirra veiðarfærum þarf á hvíld að halda á meðan laxarnir ná sér eftir áfallið.”
Í kaflanum um fyrstu Íslandsförina lýsir Stewart marglitum hópi Íslendinga sem sitja á þilfari strandferðarskips austur á fjörðum. Hann segir: -Þarna var t.d. feitlagin kona með ungabarn, u.þ.b. fimm mánða gamalt, sem hún fóðraði á harðfiski. Harðfiskur er sólþurrkaður þorskur, grófur matur og einstaklega seigur undir tönn. En konan tuggði fiskinn og potaði honum síðan uppí barnið.
Þetta var hryllileg sjón, en íslenski kynstofninn í þá daga var stórkostlegur, þannig að hann hefur þrifist vel á svona mataræði.”

Fyrsta Íslandsförin var farin seint um haust og dvalið fram á vetur. Stewart og félagi hans gistu við Langá og voru aðallega í skotveiði í það sinnið. Þar stendur: -Um tíma voru heiðlóur mjög algengar. Við skutum þær aðeins til átu. Þær voru of gæfar til að gaman væri að skjóta þær, en þær brögðuðust frábærlega. Vaðfugla skutum við ekki, utan að tvær tildrur féllu fyrir misgáning….”
Og: ….rjúpaveiðin var óskemmtileg. Ekki að það væri ekki nóg af rjúpu. Áður en snjór féll var vandalaust að finna hópa þar sem þær sátu saman margar og þétt og svo þurfti beinlínis að sparka einni á loft til að geta skotið hana. Sparka svo í þá næstu og svo koll af kolli. Þannig var hægt að skjóta hvern einasta fugl í hópnum ef maður var í stuði til þess. Yfirleitt létum við því rjúpurnar í friði, nema þegar við vildum breyta til á matseðlinum.”

Og Stewart og félagi hans kynntust sóknarprestinum á Borg á Mýrum: -Sóknarpresturinn á Borg kom af og til í heimsókn. Ég held að hvatinn hafi verið að hann vissi að við áttum nóg af viskíi, en hann gerðist mjög skrafhreifinn og skemmtilegur er leið á kvöldin. Hann kunni hafsjó af sögum af Íslendingum og þjóðsögum sem gaman var að hlusta á. Í einni af fyrstu heimsóknum hans spurði hann okkur hvort við værum lærðir. Við höfum líklega gert heldur mikið úr menntun okkar, því útkoman varð sú að hann krafðist þess að tala við okkur á Latínu. Vonandi tókst okkur að láta sem við skyldum hann, og líklega hefur það tekist, því að hann lét ekki af þessu og talaði í tíma og ótíma á Latínu. Síðan hef ég ekki gortað af menntun minni.”
Hann lýsir íslenskum bóndabýlum, enda gistu flestir hinna bresku á slíkum býlum enda var þetta fyrir tíma sérstakra veiðihúsa. Hann segir: -Eitt er það sem verður að laga, það eru salernin. “Nafnlaus viðbjóður” (nameless horror) nær ekki að lýsa þeim, en verður að duga.” (Væntanlega að lýsa íslenskum kamri).
Síðan er farið að þræða árnar og sú fyrsta sem Stewart lýsir er Straumfjarðará, sem hann ber afar vel söguna. Hann greinir frá kynnum sínum af “Hjörleifi”, bónda sem veiðimenn bjuggu hjá. Greinir frá ýmsu sem Hjörleifur hafði fyrir stafni, m.a. að hann hafi reykt lax…..-Meðal þess sem Hjörleifur afrekaði var að reykja lax, en reyktur lax er ákaflega góður matur, utan að reyktur lax hjá Hjörleifi var það alls ekki. Ég kynnti mér aðferðir Hjörleifs og komst að því hvers vegna laxinn var óætur. Hann kynnti undir með sauðataði, en slík reykingaraðferð gefur flakinu andstyggilegt bragð.”

Já og vitiði hvað? Veiða-sleppa var ekki langt undan og var væntanlega á barnsskónum í þá daga. Stewart er kominn hér í frásögnina af Hrútu og Síká, sem hann hafði á leigu í áratug: “Ég hafði ána á leigu í áratug og á þeim tíma var hugsað vel um ána, næstum öllum smálaxi og mörgum stærri löxum var sleppt aftur í ána og aldrei drepið of mikið af fiski úr ánni. Aldrei hef ég séð eftir því.”
Og meira frá Hrútu: “Og þá var komið að “Hægri beygju” (veiðistaður), sem við nefndum svo vegna lögunar staðarins. Þegar fyrst ég leit þennan hyl augum, og enn þann dag í dag, finnst mér þetta vera fallegasti veiðistaðurinn í ánni. Ef ég væri beðinn um að teikna upp ímyndaðan veiðistað, myndi Hægri beygja vera fyrirmyndin. En svo takmörkuð er mannleg dómgreind, að árin mín tíu veiddist þar aðeins einu sinni lax, 6 punda smálax, og Íslendingar sem þekkt hafa ána í 50 ár segja fisk aldrei veiðast þar.”
Stewart bauðst eitt sinn að vera í viku í Laxá í Dölum. Á leiðinni frá Hrútu og yfir í Dali þurfti hann að nesta sig og komu þeir félagar við á Borðeyri til þess arna. Hann lýsir svo verslunni á Borðeyri: “Á Borðeyri er aðeins ein verslun, sem minnir helst á búðir í Alaska þar sem menn geta keypt allt frá saumnálum og upp í bjarndýragildrur. Því miður var matarúrvalið í versluninni í þetta skiptið átakanlega lítið og það eina matarkyns sem við gátum fengið var baukur af seljurótarsalti og nokkrar dósir af niðursoðnum ávöxtum. Að vísu var nokkurt úrval af þurrkuðu hvalkjöti, en það var ekki að heilla okkur.”
Og þá út í veiðilýsingar sem eru ekki síður aldarspegill og til marks um það sem einu sinni var. Enn er hann að segja frá Laxá í Dölum: -Þessi hylur var líka fullur af laxi. Það hljóta að hafa verið nokkur hundruð fiskar í hylnum þennan dag. Vinur okkar hafði dregið fimm laxa, 23 til 8 punda. Hann hefði átt að ná þeim sjötta, en ég klúðraði því með ífærunni og laxinn slapp.

Það var í þessum hyl sem ég byrjaði á öðrum veiðidegi okkar. Mér tókst að missa fimm fyrstu laxana sem ég setti í. Hvað ég gerði rangt veit ég ekki enn, en eins og svo mörgum er tamt, þá kenndi ég öllu öðru um en mér sjálfum. Í volæði mínu heimsótti ég F.E.S (veiðifélagi Stewarts í flestum ám bókarinnar) til að sjá hvernig honum gengi. Hellti yfir hann vandræðum mínum og meðtók auðfengna samúðina. Hvort sem það var honum að þakka eða ekki, þá landaði ég tíu löxum í beit þegar ég kom aftur að mínum hyl, 20 til 11 punda.”

Það er ekki vafi að við gluggum aftur í bókina hans R.N.Stewart á næstunni, en við skiptum út í þetta skipti með eftirfarandi veiðilýsingu frá Miðfjarðará, sem er enn einn aldarspegillinn sem sýnir hvað eitt sinn var í íslenskum laxveiðiám. Þær eru gjöfular og góðar, en hvar er stórlaxinn? Kemur hann aftur? Stewart skrifar um Grjóthyl: -Það er svo miklu betra að láta reynsluna kenna sér heldur en að fara eftir fyrirmælum annarra. Fyrsta heimsókn mín í Grjóthyl (sem hann kallar Steiná) var til marks um það. Ég vissi að í Miðfjarðará var hylur með þessu nafni og sagt var að hann væri afar góður veiðistaður. En ég þurfti að finna staðinn sjálfur og verð að viðurkenna að þegar ég kom að hylnum fékk ég efasemdir um að skilningur minn á lýsingum sem ég hafði heyrt fengju staðist. En þegar ég byrjaði að veiða, ruku allar efasemdir útí veður og vind. Ég landaði tólf löxum, fjórum yfir 20 pundum, á þremur klukkustundum”










