Laxá í Leirársveit í útboð

Laxfoss, Laxá í Leirársveit
Laxfoss í Laxá í Leirársveit.. Myndin er fengin að láni frá FB síðu leigutaka árinnar.

Veiðifélag Laxár í Leirársveit hefur auglýst eftir tilboðum í ána frá og með sumrinu 2023 til 2027, en þeir félagar Haukur Geir Garðarsson og Ólafur Johnson hafa verið ána á sínum snærum um árabil. Búast má við að margir hugsi gott til glóðarinnar þar eð Laxá er ein þekktasta og besta laxveiðiá landsins.

Útboðið nær einnig til vatnanna þriggja í Svínadal, Eyrarvatns, Þórisstaðavatns og Geitabergsvatns, auk Þverár og Selóss, smáána sem liggja milli vatnanna en í góðum vatnsbúskap er laxveiði í þeim oft drjúg. Þá eru vötnin öll gjöful á silunginn, auk þess sem laxar veiðast þar líka.

Áhugasamir geta farið að slá saman tilboðum og skila þeim til Hallfreðs Vilhjálmssonar formanns Veiðifélags Laxár. En skilafrestur rennur út þann 12.5 næst komandi.