Pétur Alan Guðmundsson kaupmaður í Þín Verslun, vestur í bæ, betur þekkt sem Melabúðin, sá ógleymanlega sjón þegar hann átti leið um Suðurlandið í janúar síðast liðnum. Skammt austan við Hellu er ekið yfir Hróarslæk og í honum er lax og dálítið af silungi. Hefur veiði þar verið haldið uppi með gönguseiðasleppingum. En laxinn á ekkert endilega sjö dagana sæla þegar veiðitíma er lokið á haustin, því hjá sumum er alltaf veiðitími.
„Já, ég átti leið þarna um og í hálfgerðu hálfrökkri tók ég eftir dökkri þúst sem var þarna á snævi þökktum stein í Hróarslæknum, undir gömlu brúnni sem er neðan við aðal þjóðveginn. Ég hægði á mér og stoppaði og jú, þarna sat skarfur. Maður sér þá ekkert á ferskvatni á hverjum degi þannig að mér datt í hug að sjá hvað ég kæmist nærri honum uppá að ná kannski einhverjum myndum,“ sagði Pétur í samtali við Veiðislóð. Og hér má sjá hvað kom út úr því að reyna að „ná einhverjum myndum““
Til að skoða myndirnar stórar getur þú smellt
á þær og flett með örvatökkunum.
Skarfurinn ókyrrðist þegar Pétur þokaði sér nær og Pétri var nokkuð brugðið þegar fyglið tók að kippast til og leika allt á reiðiskjálfi. Brátt kom í ljós vænn laxasporður út um kjaftinn á skarfinu og smátt og smátt allur laxinn og fyrr en varði var hann búinn að æla laxi sem sannarlega var enginn tittur, líklega 6-7 punda fiskur, í heilu lagi. Hann hafði greinilega sporðrennt laxinum með hausinn á undan, enda rennur hann eflaust betur niður þannig, en þó hann væri frekar snöggur að æla fiskinum á ný var það ekkert áhlaupaverk. Eins og sjá má af myndunum þá var laxinn það heillegur að skarfurinn var augljóslega tiltölulega nýbúinn að gleypa laxinn. Er magnað að sjá á meðfygljandi myndum hversu gífurlega skarfurinn getur þanið bæði kjaft og háls.
Skarfar eru afar kræfir til veiðanna og fremur geðstirðir að auki. Eru dæmi um að þeir hafi gert aðsúg að veiðimönnum þegar þeir hafa talið sig „eiga hylinn“og í Fjarðará í Seyðisfirði lenti veiðimaður einn í því að skarfur gekk svo langt að hrifsa í sjóbleikju sem var föst á flugunni og berjast um bitann. Veiðimaður hafði betur, en skarfurinn renndi sér þá reiðilega að honum nokkru sinnum. Svona er ekki einsdæmi. Ritstjóri var t.d. á sjóbirtingsveiðum í Straumunum í Borgarfirði s.l. haust og þegar komið var að Strenghorninu og Bugtinni í morgunsárið var skarfur að kafa um allt. Við komuna færði hann sig upp á Straumaklöpp og kafaði þar, en svo fór hann að færa sig upp á skaftið og kafa æ neðar, enda var fiskurinn allur á Strenghorninu og neðst í Bugtinni og auðvitað vissi sá svarti það. Þegar ég setti síðan í fiska, kom hann kafandi með ógnandi hætti og þegar honum skaut uppúr þurfti að baða út öllum öngum, æpa og öskra til að fæla hann ofar á ný. Þetta var endurtekið nokkrum sinnum en á endanum fór hann aftur upp á Straumaklöpp og settist þar upp í fýlu. Hann reyndi ekki að kafa þar, en var óðar kominn niður í Bugt þegar ég hætti veiðum nokkru síðar.
Til gaman birtum við hér texta sem við funum á vef Fuglaverndar, en hér er ýmiss konar fróðleikur um dílaskarfinn: „Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur og toppskarfur. Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð. Dílaskarfurinn er stóri bróðir. Hann lifir á fiski og er slyngur kafari. Skarfar veiða venjulega á grunnsævi og eftir veiðiferðirnar sitja þeir á steinum, klöppum eða hafnarmannvirkjum með þanda vængi og blaka þeim í sífellu til að þurrka þá. Þá er sagt að þeir „messi“. Dílaskarfur fær nafnið af stórum, hvítum díl, sem hann ber á lærunum í varpskrúðanum frá janúar til júní. Annars eru fullorðnir dílaskarfar að mestu svartir, en ungfuglarnir eru ljósir að neðan og brúnir að ofan. Verpur í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Dvelur á veturna með ströndum fram um land allt. Dílaskarfar leita stundum upp á ferskvatn, ár og vötn og sjást jafnvel á vötnum á hálendinu. Nokkrir tugir hafa sést á Þingvallavatni. Varpútbreiðslan hefur dregist saman og hann er nú horfinn af Norðurlandi og öðrum eldri varpstöðvum. Dílaskarfur er algengur varpfugl víða um heim, bæði á norður- og suðurhveli jarðar.“











