Það er ekki ofsögum sagt um vatnsleysi og aflabrest í laxveiðiánum. En skyldu einhverjar þeirra vera með betri stöðu en á sama tíma í fyrra? Við skoðun fundum við alls sex slíkar ár, en í aðeins einu þeirra tilvika var aukningin umtalsverð. Það er í Eystri Rangá sem hafði þann 10.7 skilað 187 löxum meira á land heldur en 11.7 í fyrra. Skoðum þetta aðeins.
Vefur LV er með þann skemmtilega og nauðsynlega sið að birta vikulega veiðitölur úr fjölda laxveiðiáa. Við hér á VoV höfum síðustu árin nýtt þessar tölur til að gefa enn betri mynd af gangi mála. Núna ætlum við að taka flestar af ánum á lista LV (angling.is) og bera þær saman við sama tíma í fyrra. Nýjasta vikutalan nú er 10.7, en í fyrra var viðmiðunardagurinn 11.7. Einn dagur til eða frá skiptir engu í þessu samhengi. Nokkrum af ánum hjá LV er sleppt. Það er vegna þess að sumar voru ekki með nýrri tölu en 3.7 og aðrar voru ekki með viðmiðunartölu frá 2018.

Það er ljóst, að hvað sem gerist héðan af þá mun þetta laxveiðisumar standa 2018 langt að baki. Þó gæti eitthvað ræst úr, t.d. var nýverið 18 laxa dagur í Elliðaánum, lax er sagður að ganga um öll neðri svæði Leirvogsár, það er vaxandi straumur og væta í kortunum. Við þetta má bæta orð Einars Lúðvíkssonar umsjónarmanns Eystri Rangár, að 10.7 hafi komið öflug ganga í Eystri Rangá sem skilaði 42 laxa degi, “besti dagurinn til þessa. Laxinn byrjar oft að ganga um 10.júlí þegar að nótt fer að dimma,” sagði Einar.
Segja má að Eystri Rangá tróni á toppnum þó að Urriðafoss sé með hæstu töluna. Í því samhengi að miðað sé við fyrrnefndar dagsetningar er Eystri Rangá með 187 löxum meira en í fyrra, eins og fyrr sagði, en Urriðafoss 216 löxum minna. En skellum okkur í listann, fyrsta talan er 10.7 s.l. en seinni talan 11.7 í fyrra. Í sviganum er munurinn.
Urriðafoss 502 – 718 (minus 216)
Eystri Rangá 405 – 216 (plus 187)
Miðfjarðará 202 – 515 (minus 313)
Blanda 175 – 417 (minus 242)
Ytri Rangá 164 – 401 (minus 237)
Elliðaárnar 153 – 325 (minus 172)
Þverá/Kjarrá 140 – 1186(minus 1046)
Haffjarðará 133 – 487 (minus 354)
Brennan 122 – 229 (minus 107)
Laxá í Aðaldal 114 – 175 (minus 61)
Grímsá 94 – 301 (minus 207)
Norðurá 83 – 834 (minus 751)
Selá 62 – 215 (minus 153)
Flóka 58 – 155 (minus 97)
Víðidalsá 57 – 125 (minus 68)
Hofsá 54 – 97 (minus 43)
Laxá á Ásum 54 – 172 (minus 118)
Skjálfandafljót 53 – 50 (plús 3)
Langá 51 – 346 (minus 295)
Jökla 48 – 38 (plús 10)
Laxá í Kjós 42 – 276 (minus 234)
Ölfusá 42 – 38 (plús 4)
Vatnsdalsá 42 – 123 (minus 81)
Laxá í Leirársveit 34 – 176 (minus 142)
Hítará 32-156 (minus 124)
Fnjóská 29 – 25 (plús 4)
Laxá í Dölum 28 – 136 (minus 108)
Hvítá v/Langholt 25 – 154 (minus 129)
Deildará 24 – 21 (plús 3)
Hrútafjarðará 16 – 45 (minus 29)
Gljúfurá í Bo. 12 – 69 (minus 57)
Svartá í Hún. 4 – 10 (minus 6)
Búðardalsá 3 – 70 (minus 67)
Breiðdalsá 1 – 10 (minus 9)

Talað hefur verið um góðan gang í Vopnafirði og í Jöklu, en bæði Selá og Hofsá eru í mínus. Um það er þó að segja að Selá var opnuð seinna en í fyrra, og með glæsibrag, en síðan lítið veidd í heila viku. Hofsá fór hægar af stað, en hefur sótt sig og er lífleg, hvernig svo sem sumarið kemur út. Jökla er tíu löxum í plús miðað við í fyrra og stefndi áin þá hraðbyri í metveiði, eða þar til yfirfall kom allt, allt of fljótt. Nú eru sagðar líkur á yfirfalli einhvern tíman í ágúst, seinna en í fyrra, en samt öruggt þar sem hátt er í Hálslóni. Engu að síður verður gaman að fylgjast með gangi mála þar til þau ósköp dynja yfir..
En sem sagt, með örfáum undantekningum er þetta ekki fallegur listi, en enn gæti ræst úr, veiðimenn eru alltaf bjartsýnir.