
Fyrsti flugulax sumarsins veiddist á flugu sem að við hjá VoV höfðum aldrei fyrr heyrt getið. En augljóslega erum við ekki nógu tengdir, hún er víst orðin fræg….Franc N Snaelda, skírskotun til Frankensteins og tveggja af fengsælustu flugum landsins…
Skírskotunin er eðlileg og skemmtileg, því að Frances og Snældu túpur eru hálfgerðir óskapnaðir ef borið er saman við smærri nettari flugur.

Ef hægt væri að hnoða Frigga inn í þessa flugu þá væri hún sennilega bönnuð! En okkur langaði að forvitnast um þessa flugu og spurðum því leigutakann að Urriðafossi, Hörpu Hlín Þórðardóttur, hvort hún vissi eitthvað um málið. Jú, hún vissi það: Já, hún er sambland af Frances og Snældu. Það er leiðsögumaður í Dee í Englandi sem hannaði hana og stofnaði svo fyrirtæki um hana í kjölfarið. Hann selur mjög mikið af henni um allan heim. Hún er held ég líka til í Veiðihorninu. Það eru til margir litir en þeir fengu laxinn á gula/orange francNsnælda.
Leiðsögumaðurinn sem um ræðir heitir Jean Stanton og er staðarleiðsögumaður við Dee hjá Ballogie Estate. Það er auðvelt að fletta honum upp á Facebook og þar geta menn og konur séð nokkrar skemmtilegar myndir af flugunni. Augljóslega þarf engum að koma á óvart að þessi fluga hvell gefi. Hún er fullkomlega í stíl við þær flugur sem hún er kennd við og sjá má líkingar við fleiri þó að við ætlum ekki dýpra í þá sálma. Skemmtilegt að fá nýja flugu í boxið, flugu sem gefur!