Ný laxveiðiá í uppsiglingu?

Laxá er víða afar falleg. Myndirnar eru allar teknar af heimasíðu Laxár á Keldum, hér á FB.

Við sögðum fyrir einhverjum misserum síðan að vinna væri í gangi til að gera hliðará Eystri Rangár sjálfbæra laxveiðiá. Sú heitir Laxá á Keldum og geta forvitnir skoðað síðu undir því nafni á FB.

Hrygningarlaxi sleppt ofan Tungufoss í fyrra haust.

Eystri Rangá er eins og allir vita ein mesta laxveiðiá landsins, ár eftir ár í hópi þeirra með hæstu töluna. Ekkert frekar en frænka hennar Ytri Rangá er hún sjálfbær og veiði er haldið uppi með stórum gönguseiðasleppingum. Ofarlega í Eystri er Tungufoss. Ólaxgengur og mikill foss. Laxá á Keldum rennur í Eystri ofan hans og rannsóknir hafa sýnt að á sama tíma og Eystri fóðrar ekki hrygningu laxa neðan við fossinn, þá getur Laxá það prýðilega. Síðustu árin hefur verið unnið sleitulaust að rannsóknum, klakveiði, hrognagreftri og öllu sem tilheyrir. Á teikniborðinu er fiskvegur í Tungufoss og er áætlað að hann verði smíðaður á næsta ári. Allt að gerast sem sagt og spennandi verkefni í gangi.

Áin er víða veiðileg.

Nýlega sendu þeir aðilar sem standa að verkefninu frá sér nokkurs konar stöðuskýrslu og sögðu þá m.a. þetta: –

Síðastliðin fjögur ár höfum við sleppt hundruðum laxaseiða, grafið frjóvguð hrogn víðsvegar í ánni og sleppt fullorðnum löxum fyrir hrygningartímann svo þeir hefðu tækifæri til að hrygna á náttúrulegan hátt í ánni.
Mælingar, eftirlit og rannsóknir vísindamanna sem starfa með okkur að verkefninu sýna að árangurinn er mjög góður. Hrognin klekjast út og seiðin sem við höfum rafveitt og greint, bæði þau sem hafa verið sleppt og þau sem hafa klakist út í ánni, sýna góðan vöxt og magafylli. Náttúruleg hrygning með árangri er ekki möguleg fyrir neðan Tungufoss en ofan Tungufoss, á svæði Laxár á Keldum, hefur verið sannað að náttúruleg og sjálfbær lífskeðja laxins er raunhæf.
Fiskivegurinn við Tungufoss er næsti fasi verkefnisins. Hönnun hans er nú í gangi eftir nákvæmar mælingar og vangaveltur um hvernig lega vegarins verði best. Stefnt er að því að hann verði lagður á næsta ári sem mun gera laxinum kleift að komast á sínar heimslóðir.
Þá fer líka að styttast í að hægt verði að kanna veiðistaði, uppgötva hvar laxinn helst tekur, nefna veiðistaði og upplifa ævintýri landnemans við árbakka Laxár á Keldum.“