Það er komið fram yfir miðnætti og því dottinn inn 19.6. Six Rivers árnar á Norðausturhorninu áttu allar að opna í gær en var frestað þangað til í dag. Þar eru væntingar í góðu lagi.
Laxveiðin byrjaði víða vel en annars staðar bara alls ekki og eftir smálaxasumarið í fyrra voru flestir með væntingar um að fleiri stórlaxar myndu sýna sig en raunin hefur verið til þessa. Enn slakt í Blöndu og opnanir í ám á borð við Grímsá og Laxá í Leirársveit fisklausar, þó að hermt sé að búið sé að landa laxi úr þeim báðum. Og að ekki sé laxlaust. Þverá byrjaði vel, dalaði svo, Kjarrá tók við með fína opnun, en hvað gerist svo þar í framhaldinu. Norðurá hefur dalað verulega, en Víðidalsá var með sex laxa opnun á fyrstu vakt. Þá hefur Urriðafoss tikkað bærilega en dagarnir misjafnir. Þá er víða farinn að sjást smálax, má nefna Blöndu, Straumana og víðar. Þetta er frekar snemmt fyrir eins vetra laxinn, en það er allt snemma á ferðinni þetta árið út af óvenjulegu árferði.
Af þessum sökum horfa menn nú til smálaxagangna sem og opnana á Norðausturhorninu. Gísli Ásgeirsson framkvæmdastjóri Six Rivers sagði okkur í vikubyrjun að stiginn í Selárfossi hefði verið opnaður og ellefu laxar rifið sig umsvifalaust upp og gengið upp fyrir. „Það er hreyfing á laxinum og það hefur verið líflegt neðan við Fossinn að undanförnu,“ sagði Gísli og bætti við að væntingar væru hóflega góðar. Eyþór Bragi, bóndi á Bustarfelli og leiðsögumaður í Hofsá sagði okkur jafnframt um líkt leyti að menn hefðu ekki verið að skyggnast eftir fiski, en áin liti vel og veiðilega út og bjartsýni til staðar. Aðrar ár innan Six Rivers á þessum slóðum sem opna einnig eru t.d. Miðfjarðará og Hafralónsá. Síðan eru Sunnudalsá og Vesturdalsá, en ekki að vænta frétta af þeim fyrst um sinn.










