
Laxveiðivertíðin er að hefjast á næstu dögum og segja má raunar að hún hafi hafist í dag, því fyrsti laxinn kom á land. Það var sami veiðimaður og veiddi þann fyrsta í fyrra, veiðistaðurinn sá sami og dagurinn höldum við bara líka. Þetta var í Skugga, ármótum Grímsár og Hvítár.
Sem sagt, 82 cm hrygna sem Mikael Marino Rivera setti í og landaði. Frétt þessa rákumst við á í Skessuhorni. Laxinn tók neðst á svæðinu, þar sem heitir Norðurkot. Þar rennur áin með þungum straumi, en fallegum speglum með grjóti í botni meðfram klettabelti sem er rétt ofan við gömlu Hvítárbrúna. Áður höfðu Sporðaköst greint frá löxum í Norðurá, einn þeirra meira að segja kominn alla leið upp á Berghylsbrot sem er rétt neðan við Glanna. Einnig taldi góðvinur okkar sig hafa séð tvo þegar han kíkti fram af hömrum ofan í Kerið í Gljúfurá. Að það sé líf í Borgarfirðinum á þessum tíma vors/sumars er ekkert nýtt. Alvanalegt meira að segja því að forðum, á dögum netaveiða var alltaf lagt í Hvítá 20.mai. Og alltaf var veiði, stundum lítil stundum meiri, en sjaldgæft var að ekkert veiddist. Mörg dæmi um stangaveidda laxa á svæðinu í maimánuði eru til, m.a. frá Brennunni og Straumunum.
Við þetta má bæta að óstaðfest frétt er um stórlax í Jöklu. Sá var kominn upp að Steinboga. Þá heyrðum við frá kunningja okkar einum sem fær sér oft göngutúra í hrauninu við Straum, fast sunnan af álverinu í Straumsvík. Þar hefur hann oft séð laxa stökkva í sjónum í mai. Þar kemur uppsprettuvatn undan hrauninu og rennur út í sjó. Lax sem kemur í Faxaflóann þræðir ströndina og þarna er þá fyrsta rennandi ferskvatnið sem hann þefar af. Og um helgina var líf í sjónum við Straum. Oftast hefur verið búið að spotta laxa í Laxá í Kjós á þessum tímapunkti, en það síðasta sem að Haraldur Eiríksson leigutaki sagði okkur var að eftir blíðviðrisdaganna hefði rignt svo mikið í Kjósinni að áin hljóp í grugg. En hún hefur verið að hreinsa sig og eflaust bara klukkutímaspursmál hvenær sá fyrsti silfraði sést þar.
Og það er stutt í mánaðamót, aðeins nokkrir dagar og það þýðir bara eitt: Það verður opnað við Urriðafoss í Þjórsá þar sem alltaf er líf í tuskunum fyrstu daga vertíðar.