Illt ástand orðum aukið?

Falleg bleikja...

Mikið hefur verið rætt um meint illt ástand fiskistofna í Þingvallavatni og flestir sammála um að „eitthvað sé að gerast“ þar á bæ. Murtan horfin, bleikjan í mikilli hnignun og ríflegur hluti urriða horaðir og tætingslegir. En það er alltaf gaman að fá góðar fréttir af svoleiðis háskaslóð…

Ingimundur Bergsson framkvæmdastjóri SVFR og pabbi Veiðikortsins sagði okkur í gær að hann hefði fengið frábært fréttaskot austan af Þingvöllum, nánar tiltekið frá Lambhaganum sem er landi Þjóðgarðsins. „Þar var einn á ferð sem setti í tólf bleikjur, landaði sjö og missti fimm. Mikið líf og vonandi að bleikjan sé að taka við sér,“ sagði Ingimundur. Bleikja hefur einnig sést í afla víðar í vatninu, t.d. hjá Kárastöðum. Þetta er annars mjög snemmt fyrir bleikjuna í Þingvallavatni og helgast eflaust af góðri tíð. Spekingar sögðu ævinlega fyrrum að bleikjan kæmi ekki inn í veiðina í Þingvallavatni fyrr en birkið byrjaði að taka við sér. Það gat verið liðið á júní í kaldari árum, en er löngu dottið inn núna.