Grynningar urðu að næst besta veiðistaðnum

Grafan að störfum

Algengt er að heyra af því að leigutakar, landeigendur eða báðir aðilar sameinist um að fikta aðeins í ánum. Lyfta upp hyl með grjóti, eða hreinlega grafa út gamla veiðistaði sem einu sinni voru númer, en áin síðan skemmt með tímanum. Hér er skemmtileg saga um vel lukkaða slíka aðgerð norður í Fljótaá í Fljótum.

Fljótaá er vel þekkt í flórunni. Laxveiðiá sem sveiflast milli slakra talna upp í alveg hreint fínar tölur. Þetta er fjögurra stanga á og fjölbreytt með afbrigðum þegar kemur að veiðistöðum. Þá er hún frá fornu fari ein albesta sjóbleikjuá landsins. En sjóbleikjunni, þeirri ekta úr hafi, hefur fækkað mikið eins og annars staðar, en sú sem byggir Miklavatnið, sem er ísalt, dafnar enn prýðilega. Er svona hálfgerð sjóbleikja. Hún raððar sér enn í Fljótaá í umtalsverðu magni.

Þarna er svæðið merkt inn með rauðu…

Vigfús Orrason er leigutaki Fljótaár í samstarfi við Stangaveiðifélag Siglufjarðar. Hann hefur umsjón með ánni og sér um sölu þeirra veiðileyfa sem Siglfirðingar teygja sig ekki eftir. Áin er vinsæl og nokkuð sérstök að því leyti að hún er virkjuð. og hefur það áhrif á vatnsmagnið. „Stærst“ er hún neðan við neðri stöðvarhúsin því þar bunar í ána úr göngum og sameinast aðalstraumnum. Ofar eru enn fremur virkjunarmannvirki og á þeim slóðum er áin eðli málsins samkvæmt vatnsminni. Samt er Flkjótaá engin spræna, er t.d. alls ekki auðvæð frá miðju og niður úr.

Vigfús segir okkur að hluti af leigunni renni í sjóð sem nota skuli til handa ánni sjálfri. Í fyrra hleypti Vigfús af stokkunum tilraun til að endurheimta fornfrægan veiðistað sem hafði gefið lítið sem ekki neitt um árabil. Fyrir þá sem til þekkja í Fljótaá þá er um að ræða Efra Vað sem er ofan við beygju, ofan við þekktan veiðistað, Stekkjarhyl, sem Vigfús segir að gangi einnig undir nafninu Vitlausihylur.

Og þarna lögðust laxar…
Og staðurinn reyndist númer tvö yfir veidda laxa í fyrra.

Þessir staðir eru á svæði í ánni þar sem tveir jafn fljótir duga best til að komast að og milli veiðistaða. „Landeigendurnir eru glúrnir þarna og vita hvað hægt er að gera og hvað ekki. Þeir komu gröfu þarna niður eftir gömlu túni og grófu út þennan fína hyl þar sem lítið var annað en grynningar. Þá var borin möl í staðinn og ég reikna með því að það þurfi að bæta við hana  fyrir komandi vertíð. Allt var þetta gerð með samþykkii og leyfum allra tilheyrandi og umsögn fékk ég frá fiskifræðingi, Ella Steinari á Akureyri. Það er ekki bara vaðið í svona inngrip,“ segir Vigfús í samtali við VoV.

Jæja, og hvernig tókst til?

„Bara alveg frábærlega. Strax snemma sumars var komið mikið af bleikju í hylinn og þegar opnað var fyrir laxveiðina þann 20.júní tók fyrsti lax sumarsins í Efra Vaði hinu nýja. Það hefði verið Maríulax, en reif sig lausan í löndum. En þetta gaf tóninn, Efra Vað var næst besti laxastaðurinn sumarið 2024, næstur á eftir Berghyl sem er alla  jafna bestur. Stundum hefur Bakkahylur, efst í ánni, verið bestur, en hann var daufur í fyrra.“

Og þú býst við meira af því sama á komandi sumri?

„Það kemur bara í ljós. Ég vona það. Það komu ægileg flóð í ána eftir fyrra kuldakastið í júní í fyrra, eftir það fór hitastigið úr 0 gráðum í 20plús á einni nóttu og var þannig dögum saman. Tröllaskaginn fór bara allur af stað og áin hljóp í rosalegan vöxt. Hún fór alveg í 70 rúmmetra á sekúndu, en til gamans má geta þess að þegar Þjórsá er vatnslítil, þá er hún svipuð. Framan af var áin kolmórauð, en hreinsaðist smám saman. Hún var hins vegar afar vatnsmikil allt sumarið í framhaldinu. Hylurinn hélt sér vel í þessum hamförum og ég vona að hann komi líka flottur undan vetri.“

Og það verður meira gert í vor?

„Mig dreplangar að gera metnaðarfullan veiðistað neðar í ánni. Sjóðurinn sem við nefndum er fyrir alla ána og svona verkefnum þarf því að dreifa skynsamlega og á sanngjarnan hátt. Ég er að bíða eftir grænu ljósi frá stjórn veiðifélagsins. Þarna er veiðisvæði sem mér finnst vera í dauðafæri að laga svona til. Það er kennt við Drang og Drangsbreiðu. Þarna veiðast fiskar í göngu á stangli, en svæðið hefur alla burði til að vera heimilislegra fyrir laxfiska og betri veiðistaðir með réttum handtökum.“