Urriðafoss endaði með 7 á land

Sá stærsti í dag, 89 cm hængur. Myndin er frá IO veiðileyfi.

Alls veiddust sjö laxar á opnunardeginum í Urriðafossi í Þjórsá. Nokkrir sluppu. Þetta er minna en síðustu opnanir, en lítið að marka það, það var talsvert líf þarna í dag og laxarnir hefðu með smá heppni getað orðið fleiri.

Þetta þýðir að seinni vakt dagsins gaf fjóra laxa, sú fyrri þrjá eins og við gátum um. Allt voru þetta vænir fiskar, einn þó „aðeins“ 70 cm sem er stórlaxaviðmiðið. Sá stærsti í dag kom eftir hádegið, 89 cm, 16-17 punda hnausþykkur höfðingi úr veiðistaðnum Huldu. Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni, en þetta er strax orðið betra en á Bretlandseyjum þar sem varla hefur sést tveggja ára lax þessar fyrstu vikur þar.