Þrír fyrir hádegi úr Urriðafossi

Stefán, Harpa og Matthías með einn af þremur. Myndirnar eru allar frá Iceland Outfitters.

Laxveiðivertíðin hófst í morgun er fyrstu köstin voru tekin við Urriðafoss í Þjórsá. Aldrei þessu vant fréttist ekki af snemmgengnum löxum á silungasvæðum þetta árið, en fyrsti laxinn 2023 reyndist vera 70 cm lax. Alls komu þrír á land á fyrstu vakt.

Stefán með þann stærsta í morgun.
F.v. Stefán, Harpa, Birna og Haraldur.
Efri hluti veiðisvæðisins. Flott vatn og ekki of skolað.

Það var Stefán Sigurðsson, leigutaki Urriðafoss ásamt eiginkonu sinni Hörpu Hlín, sem veiddi þann fyrsta í veiðistaðnum Lækjalátur. 70 cm nýgenginn fiskur. Síðan komu tveir til viðbótar, mun vænni eins og myndirnar segja til um. Þetta er rólegri byrjun heldur en í fyrra, þá gaf fyrsti dagur 17 laxa, en dagurinn er jú aðeins hálfnaður. Auk Stefáns og Hörpu, voru við opnunina Matthías sonur þeirra, auk Birnu Harðardóttur og Haraldar Einarssonar, eigenda Urriðafoss.

Matthías Stefánsson og Haraldur Einarsson með einn af þremur.

Þetta er sum sé allt farið í gang og næst upp er Blanda n.k. sunnudag. Og svo hinar allar koll af kolli. Illa hefur viðrað til skyggninga á laxi að undanförnu vegna veður og vatnshæðar, en þó er hann kominn í Laxá í Kjós og í Sporðaköstum á mbl.is var greint frá því í morgun að lax hafi sést stökkva á Munaðarnessvæðinuí Norðurá í gær. Þetta veit vonandi allt á gott, ekki væri það verra því fregnir að utan, sérstaklega frá Bretlandseyjum og Írlandi, herma að stóri vorlaxinn hafi algerlega „klikkað“ að þessu sinni. Það lakasta þar sem elstu menn muna.