Birtingurinn enn að gefa sig

Það eru að veiðast bæði stórir og smærri birtingar í Kjósinni í vor, góður þverskurður af nokkrum árgöngum. Myndin er fengin af FB síðu Laxár í Kjós.

Enn veiðist sjóbirtingur víðast hvar, oftast er hægt að hitta á hann fram eftir mai, en árferði getur þó ráðið ýmsu um það.

Laxá í Kjós er gott dæmi, í gær töldu 220 birtingar í bók en veiði hófst ekki fyrr en 15.4 og lýkur 5.mai. Sem sagt mun styttri vorvertíð en gengur og gerist í öðrum ám sem opnar eru. Á FB síðu Laxár, sem Haraldur Eiríksson leigutaki og umsjónarmaður heldur utan um kemur fram að allur skráður fiskur sé birtingur, hoplaxinn hafi farið til sjávar óvenjulega snemma, nema að svona fáir hafi lifað veturinn af. Þá dettur VoV til hugar ægiflóðin á nýliðnum vetri. En það er bara hugleiðing. Þá höfum við frétt að birtingurinn sé farinn að færa sig neðar í ánni. Það sé sem sagt að styttast í brottför hans til sjávar. Veiðin það sem af er verður að teljast frábær, 10 til 20 fiskar á dag á fjórar stangir, bestu dagarnir þegar skýjað er og hæfilegur vindur.

Á Suðvesturhorninu hefur Leirá einnig verið virkilega góð og góð skot hafa verið í Leirvogsá, en það eru aðeins þrjú ár síðan að vorveiði byrjaði í henni, í tilefni af því að menn fundu fyrir góðum vexti í sjóbirtingsstofni árinnar. Auk þessa er veiddur sjóbirtingur í Grímsá og neðst í Þverá. En ýmsir hafa saknað Laxár í Leirársveit í þessu samhengi, enda á þessum slóðum og með sterkan og heilbrigðan sjóbirtingsstofn. Því hefur verið fleygt að þar hefjist vorveiði innan tíðar, ekki þó á þessu ári úr því sem komið er. VoV spurði Ólaf Johnson, annan leigutaka árinnar, út í það en hann skaut þær vangaveltur á kaf: „Sorry, það er svo mikið að niðurgöngu laxi á þessum tíma og því var ákveðið fyrir nokkrum árum að hlífa honum og hætta vorveiðinni.“

Þannig að veiðimenn- og konur verða því að gera sér að góðu það sem í boði er.