Opnar á laugardag – hvað gera veðurguðirnir?

Þessi hefur marga fjöruna sopið!

Fyrsti dagur vertíðarinnar er á laugardaginn n.k. 1.apríl 2023. Erfitt er að gera sér í hugarlund hvernig fer þessa fyrstu daga eftir langvinn frost um allt land og víða mikinn snjóþunga. Það er ansi vetrarlegt á veiðislóðum, en þó hefur aðeins tekið að hlýna. Og spáð hlýnandi veðri með vætu. Það þarf mikið til brjóta upp ummerki Veturs konungs, en við sjáum hvað setur.

Það eru ekki allir stangaveiðimenn sem hafa yndi af veiðiskap í apríl og mai, enda kuldinn og vosbúðin aldrei langt undan þó að heita eigi að vorið sé komið. Það eru hins vegar, þegar að er gáð, furðulega margir veiðistaðir sem standa mönnum til boða. Við ætlum að skoða eitthvað af því hér. Vorveiðin er oftast kennd við sjóbirtinginn, en víða er staðbundinn urriði einnig til tals. Fyrir kemur að bleikja slæðist í aflann, en hún vaknar oftast betur til lífsins þegar líður aðeins á vorið. Og þar sem þannig háttar til, kemur hoplax einnig í fluguna.

Glæsibirtingur úr Tungufljóti. Mynd Sindri Hlíðar

En skoðum hvaða svæði eru í boði. Þrír veiðileyfasalar eru með umtalsvert mesta framboðið. Fish Partner er til dæmis með svæði sem eru að opna á víð og dreif um aprílmánuð. Þann 1.4 opna hjá þeim t.d. Tungufljót, Fossálar, Vatnamótin, Skaftá hjá Ásgarði, Laxá í Aðaldal í Árbót og Sogið í Þrastarlundi. Einnig má nefna Geldingatjörn á Mosfellsheiði sem opnar „þegar ísa leysir“. Þá eru Fish Partner með veiðistaðaklasa sem þeir starfrækja líkt og Veiðikortið. Slatta af mjög frambærilegum svæðum er þar að finna. 7.apríl má t.d. byrja að veiða í Svínadalsvötnunum Þórisstaðavatni, Geitabergsvatni og Eyrarvatni auk þess sem „ísa leysir“ stympillinn er á Laxárvatni og Langavatni á Héraði. 15.apríl opna Villingavatnsárós í Þingvallavatni, Villingavatn og Tjörnin við Villingavatn. 20.apríl koma svo Kárastaðir í Þingvallavatni inn og um líkt leyti eru „ION svæðin“, Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárós að spretta í gang.

Veida.is er með vænan lista af valkostum. Hér er t.d. listi yfir svæði á þeirra vegum sem hefja má veiðar í þann 1.apríl:  Brúará Skálholt og Spóastaði, Hvítá við Skálholt, Galtalækur, Hólaá við Útey, Hópið, Hraun í Ölfusi og Sogið við Torfastaði. Skorradalsvatn opnar síðan 20.apríl.

Veiðikortið er með sinn skammt af valkostum, nefna má Hraunsfjörð, Vífilstaðavatn, Þveit og Vestmannsvatn sem opna 1.apríl, Kleifarvatn 15.apríl, Meðalfellsvatn 18.apríl og Þjóðgarðurinn í Þingvallavatni 20.apríl. „Ísa leysir“ vötnin eru m.a. Baulárvallavatn, Hraunsfjarðarvatn og Sauðlauksdalsvatn.

Iceland Outfitters láta einnig til sín taka 1.apríl, m.a. með sjóbirtingsflaggskipi sínu Leirá, Brúará við Sel, Hólaá við Austurey og Laugardalshóla, auk urriðasvæðis Ytri Rangár ofan Ægissíðufoss og sjórtingssvæðisins neðan við Ægissíðufoss.

Einn flottur úr Eldvatni. Mynd Jón Hrafn Karlsson

Aðrir veiðileyfasalar hafa sig minna í frammi, t.d. SVFR með aðeins tvö svæði, Leirvogsá og Úlfarsá, eftir að Varmá heltist úr lestinni vegna klóaksmengunar.  Veiðitorg.is er með austurbakka óss Ölfusár og Brunná í Öxarfirði. Strengur er með Minnivallalæk, Lax-á með Ásgarð í Soginu og félagsskapur með Jón Hrafn Karlsson í forystu með Eldvatn í Meðallandi. Aðrir eru síðan með ár á borð við Húseyjarkvísl og Litluá. Eflaust erum við að gleyma einhverjum í þessari romsu, en við biðjum þá velvirðingar á því.