Geirlandsá skiptir um hendur

Geirlandsá.
Nóg að gera á Görðunum í Geirlandsá. Myndin er frá SVFK.

Það er að sjá að eitt albesta sjóbirtingssvæði landsins, og þótt víðar væri leitað, hafi skipt um hendur. Og að skiptin hafi flogið nokkuð undir radarinn. Við erum að tala um Geirlandsá á Síðu, sem hefur um árabil verið flaggskip Stangaveiðifélags Keflavíkur.

Þessi tíðindi hnaut VoV um í dag þegar skoðaðar voru síður veiðileyfasala með því augnamiði að sjá hvar hægt væri að veiða frá 1.apríl. Á heimasíðu Fish Partner rákumst við á óvæntan valkost. Geirlandsá. Fish Partner er stórtækur veiðileyfasali sem hefur lagt áherslu á silungsveiði þó að nokkrir laxveiðikostir séu einnig í boði. Í byrjun einbeitti félagið sér að urriðasvæðum Þingvallavatns utan ION svæðanna og ýmsum hálendisperlum. Svo beindu þeir sjónum sínum til Vestur Skaftafellssýslu, náðu Tungufljóti, síðan Vatnamótunum, þá Fossálum og nú að því að best verður séð, Geirlandsá.

Það má segja að þetta hafi fengist staðfest við skoðun á heimasíðu SVFK. Þar er nú enga Geirlandsá að sjá eða finna  lengur. Í fyrra kom fram í samtölum við SVFK, að samningur félagsins við landeigendur Geirlandsár væri að renna sitt skeið. Ætlunin var að reyna að halda ánni, en þeir vissu að Fish Partner renndi hýru auga til árinnar, enda alger perla og ein besta sjóbirtingsáin. Falleg og gjöful með afbrigðum. SVFK var líka með stóran hluta Fossála til fjölda ára, þetta er því mikil blóðtaka fyrir félagið.