Nýjustu vikutölurnar frá angling.is, sem miðast við gærkvöldið 5.ágúst benda til að fyrir utan örfáar undantekningar var laxveiðin frekar dræm síðustu vikuna. Göngur gætu verið að klárast, ár kannski ekki fullnýttar, aðstæður óhagstæðar, en allt um það, það er víðast hvar „Besti tíminn“, en aðeins tiltölulega fáar ár eru að skila umtalsverðri veiði.
Fyrir utan Eystri Rangá sem hefur verið sjóðandi heit í allt sumar, þá eru það helst ár á Norðausturhorninu, Selá, Hofsá, Jökla sem eru í góðum málum. Vestar er Miðfjarðará alveg í lagi og Blanda fékk göngu og nokkuð góða vikutölu. Aðrar á vestanverðu Norðurlandi eru mjög rólegar.
Vestanlands er enn fremur doði, Borgarfjarðarárnar slakar utan að Grímsá náði 77 laxa viku. Tölur úr vatnamótasvæðunum í Hvítá gefa ekki göngur til kynna, 5 í Skugga, 4 í Straumunum, Brennan 16 stykki. Haffjarðará er með góða viku, en Langá, Straumfjarðará, auk Dalaánna eru slakari. Ýmsar ár eru betri en í fyrra þó að þær séu ekki að skora þessa vikuna, t.d. Laxá í Kjós og í Leirvogsá segja menn að ekki hafi sést eins mikill lax í mörg herrans ár, en slæm nýting komi í veg fyrir hressilegri tölur. Það er eins og það hafi gleymst að það eru mjög víða gloppur í nýtingu út af veirufárinu.
En kíkjum á vikutölurnar, fyrri talan er heldartalan miðað við kvöldið 5.8 og talan í sviganum er vikutalan)
Eystri Rangá 3981 (673)
Ytri Rangá 1385 (245)
Miðfjarðará 920 (191)
Urriðafoss 874 (81)
Norðurá 705 (60)
Haffjarðará 669 (103)
Selá 620 (138)
Þverá/Kjarrá 617 (79)
Hofsá 546 (142)
Langá 494 (69)
Jökla 458 (125)
Laxá í Kjós 431 (42)
Blanda 410 (76)
Laxá á Ásum 363 (47)
Elliðaár 325 (38)
Víðidalsá 292 (41)
Grímsá 286 (77)
Skjálfandafljót 268 (50)
Laxá í Aðaldal 264 (22)
Laxá í Dölum 211 (42)
Svalbarðsá 208 (60)
Haukadalsá 205 (23)
Vatnsdalsá 200 (39)
Brennan 175 (16)
Hrútafjarðará 165 (35)
Hafralónsá 162 (30)
Leirvogsá 156 (28)
Straumar 155 (4)
Látum þetta gott heita þetta sinnið. Tölurnartala sínu máli. Það eru svæði í lagi, önnur langt frá því þó að þau séu eitthvað skárri en í fyrra. En það á ekki að bera neitt saman við 2019.