Haustlitir við Straumfjarðará, sést í veiðistaðinn Hýrupoll - Mynd Guðmundur Guðjónsson

Það eru komnar nokkrar lokatölur til viðbótar inn á borð til okkar á VoV. Fleiri bætast eflaust við á næstu dögum, en þarna í hópi eru ár með vel viðunandi veiðitölur.

Við erum t.d. með tölur úr Sandá og Ormarsá, Sandá með 386 laxa og Ormarsá með 441 lax. Arthur Bogason segir báðar vel yfir meðalveiði síðustu ára en talsvert slakari heldur en í fyrra eigi að síður.  Þá sendi Matthías Þór Hákonarson okkur lokatölu úr Mýrarkvísl, 115 laxar þar, en til samanburðar gaf áin 171 lax í fyrra og 97 laxa 2014. Matthías laumaði með urriðatölum, en áin er ein besta urriðaveiðiá landsins. Hún gaf í sumar 498 urriða, í fyrra 550 stykki og 2014 voru þeir 530 urriðarnir sem lutu í gras.

Síðan eru það Laxá í Aðaldal, lokatala hennar er 1207, sem er nánast sama tala og í fyrra, 1201 lax þá. Sama má segja um Fljótaá í Fljótum, 135 laxar í sumar, 142 í fyrra. Deildará var heldur ekkert svo langt frá sinni ársgömlu tölu, gaf núna 262 laxa, en 303 í fyrra. Loks erum við með Leirvogsá, þar var talsvert meira hrap, 312 í sumar á móti 706 í fyrra. Leirvogsá er svolítið eins og Laxá á Ásum, mönnum finnst 312 lítið en þegar reiknað er upp á tvær stangir þá er þetta ekki svo slæmt. Hún er bara svo ferlega góð í betri árunum.