
Veiði hefur farið vel af stað í Þorsteinsvík og Ölfusvatnsósi í Þingvallavatni í vor þrátt fyrir oft rysjótt veður. Annars staðar hefur verið erfitt utan að nokkrir fiskar hafa náðst á land í Villingavatnsósi sem er á vegum Fishpartner. Víða er enn ís á vatninu þrátt fyrir að komið sé fram yfir miðjan apríl.

Þorsteinsvík býr að jarðhitavatni sem þar rennur í vatnið undan hrauninu. Ölfusvatnsós býr að stæðilegri Ölfusvatnsánni sem heldur vatninu opnu og ísnum frá í ósnum og út frá honum. Að minna leiti, en þó, við Villingavatnsósnum. Menn ætluðu að opna Kárastaði og Svörtukletta nú um helgina en urðu frá að hverfa. Þá hefur svæði Þjóðgarðsins verið nær ef ekki algerlega vonlaust vegna íss.
Snævarr Örn Georgsson veiðileiðsögumaður er yfirleitt með puttann á púlsinum í öllu því er lítur að tæknilegum málum veiðiskaparins og hann sagði þetta, og byggði á upplýsingum á www.landsvirkjun.is þar sem smella má á „vöktun“ og þar er hnappur um hitastig Þingvallavatns: „Vatnshiti Þingvallavatns er einungis 1,25°C sem er 1,42 gráðum kaldara en á sama tíma í fyrra (2,67 °C). Vatnið var því meira en tvöfalt hlýrra á sama tíma í fyrra.“ Og hann bætir við m.t.t. betra ástands við sunnanvert vatnið: „Já, sólin er fljótari að hita svartan botninn á grunnu vatni í suðurhlutanum. Fiskurinn mun örugglega leita þangað í meira mæli. Kæmi mér ekki á óvart að veiðin yrði róleg í norðurhlutanum þar sem er aðdjúpt, það þarf rosalega mikla orku til að hita svona mikinn vatnsmassa um hverja gráðu. Og bleikjan gæti verið mjög seint á ferðinni.“