Stóri dagurinn er á morgun, 1.apríl og til marks um að lífið gengur sinn vanagang þó að sá vanagangur sé ekki alltaf þessi venjulegi vanagangur. Fjöldi möguleika er á veiði frá 1.apríl eins og sést á samantekt veidiflugur.is í færslu hér að neðan, en ljóst er af veðurhorfum að margur hefði heldur viljað byrja í dag en á morgun….og er þó veðrið ekki dásamlegt í dag.
En þetta er það sem margir vorveiðimenn vilja, kalsamt og rysjótt veður þar sem tekist er á við náttúruöflin. Dofnir fingur, hrollur, vosbúð. En í lok dags hlýr kofinn og farið yfir ævintýri dagsins. Það gæti þó orðið langur dagur þegar rýnt er í veðurkortin.
Eins og við höfum stundum gert áður tínum við út fjóra veðurathugunarstaði á vedurstofan.is. Staðsetningin á að gefa til kynna hver staðan gæti verið á nokkrum lykil veiðistöðvum. Kirkjubæjarklaustur er augljós kostur með allar sínar sjóbirtingsár. Þá höfum við valið Árnes, nálægð þar við Minnivallalæk, Ytri Rangá, Varmá o.fl. Húsavík á að gefa til kynna stöðuna við Litluá og Brunná o.fl. og Blönduós á að veita innsýn í ástandið á svæðum eins og Húseyjarkvísl.
Sem sagt, 1.apríl:
Kirkjubæjarklaustur.
Klukkan 06 að morgni, mínus 2, vestan 6 metrar á sekúndu, heiðskýrt.
Klukkan 13, plús 1, vestan 16 metrar á sekúndu, heiðskýrt.
Klukkan 18, mínus 3, norðvestan 14 metrar á sekúndu, heiðskýrt.
Árnes.
Klukkan 06, mínus 3, sv 4 metrar á sekúndu, alskýjað
Klukkan 13, 0 gráður, alskýjað
Klukkan 18, mínus 3, vestan 6 metrar á sekúndu.
Húsavík.
Klukkan 06, mínus 3, norðan 2 metrar á sekúndu, alskýjað
Klukkan 13, 0 gráður, vestan 9 metrar á sekúndu, skýjað
Klukkan 18, -3 gráður, norðan 10 metrar á sekúndu, alskýjað
Blönduós.
Klukkan 06, mínus 2, suðvestan 8 metrar á sekúndu, alskýjað
Klukkan 13, 0 gráður, vestan 9 metrar á sekúndu, skýjað
Klukkan 18, mínus 2 gráður, norðan 11 metrar á sekúndu, lítils háttar snjókoma.
Þar hafið þið það. Kalt og vindkæling í nesti. Klæða sig vel, vindstyrkurinn gæti kallað á skafrenning þar sem enn liggur snjór. VoV mun reyna eftir föngum að afla frétta af afrekum dagsins.