Halldórshylur, Reykjadalsá
Glímt við nýgenginn smálax í Halldórshyl í Reykjadalsá.

Vísiteringu VoV í Reykjadalsá í Reykjadal lauk nú um helgina. Fyrst var það ritstjóri með smá föruneyti og síðan stjórnarformaðurinn Jón Eyfjörð með annað föruneyti. Reykjadalsá flýgur iðulega undir radarinn, en hún er drjúg laxveiðiá og frábær urriðaveiðiá. VoV gekk upp og ofan með laxinn, en allt í haginn með urriðann!

Reykjadalsá
Bara lítill þessi, 56 cm og var gefið líf eins og vera ber með laxa í Reykjadalsá.

Eftir að VoV gekk um garða voru komnir á þriðja tug laxa á land, en það segir ekki alla söguna. Þetta er síðsumarsá og lax fór að sýna sig óvenjulega snemma. Þá er erfitt að skyggna þessa á og átta sig á magni. Þá hefur hún verið vatnsmikil og jafnvel með smá lit meira og minna í viku-tíu daga. Þá er ljóst að áin hefur ekki fengið almennilegar smálaxagöngur frekar en aðrar ár á norðurlandinu. Mest af þessum löxum eru stórir, 70 til 88 cm og þeir smálaxar sem að veiðast eru vel  haldnir en smáir, 55-58 cm algengast. Urriðarnir eru á bilinu 35 til 45 cm með stöku stærri fiski. Þetta er spennandi og lífleg veiðiá og dalurinn einn sá fegursti hér á landi.