Ótrúlega oft í gegnum tíðina hefur mátt lesa að önnur dýr en mannskepnan séu meira og/eða minna skynslausar skepnur sem að haga sér eftir eðlisávísun, að það sé engin hugsun sem slík.  Marg oft hafa veiðimenn þó lent í þess hátar atferli laxa og silunga að vart geti annað en vitsmunir hafa ráðið þar ferð. Hér kemur eitt dæmi og á næstunni munum við birta fleiri.

Þetta gerðist fyrir all mörgum árum við Króksbrú í Norðurá. Á þeim árum mátti enn egna með maðki og við brúna voru tveir veiðimenn að kasta flugu fyrir laxa sem lágu á breiðunni ofan við brú. Þeir höfðu séð þá greinilega af brúnni, 8 smálaxar og einn stærri, áætlaður um það bil 12 pund. Sögumaður okkar var Ómar Blöndal Siggeirsson, hann var uppi á brú og varð vitni að sjónarspilinu. Það er stolið úr okkur hver var með honum.

Nema: Ómar var uppi á brú og sá að enginn lax sýndi flugunum áhuga og þær voru all nokkrar. Þá var kallað niður og ákveðið að renna maðki. Hæfilegum sökkufjölda var raðað á línuna og síðan slakaði veiðimaður súpunni í átt að löxunum og Ómar var uppi á brú og kallað: Neðar, lækka stöng….osfrv….

Ómar sá strax að tveir smálaxar urðu æstir. Þeir fóru að tifa uggum og færa sig framar þegar maðkasúpan færðist neðar. Þeir voru líklegir. Heldur betur. Ómar kallaði niður og lét vita að þetta væri að detta inn. En hvað gerðist þá?

Stóri laxinn stormaði skyndilega fram fyrir hópinn, greip sökkuröðina þvert í kjaftinn og tróð því ofan í grjót í botninum. Á þetta horfði Ómar agndofa. Í staðinn fyrir að félagi hans niður við á væri að eiga við laxa sem sýndu áhuga, var allt í einu allt fast. Og svo kirfilega fast að félaginn þurfti að slíta. Þegar hann hafði græjað allt uppá nýtt og renndi aftur á laxana, voru engin viðbrögð. Þarna lágu þeir og litu ekki við neinu.