Himbriminn…hann getur verið erfiður

Himbrimi
Himbriminn er "vopn"

Stangaveiðimenn eru að glíma við ýmiss konar hliðarmál þegar þeir eru að egna fyrir bráð sína. Það getur nefnilega verið samkeppni. Af reynslu ýmissra er t.d. augljóst að aðgát skal höfð í nærveru…..himbrima!

Himbrimi er stór fugl af svokallaðri brúsaætt. Það er annar brúsi á Íslandi, lómurinn og einn fjarskyldur, flórgoði. Himbrimi en Norður Amerísk tegund sem finnst hvergi í Evrópu nema á Íslandi.  En saman eiga brúsarnir tveir  það sameiginlegt að geta varla gengið á þurru landi vegna þess hversu stórir sundfits fætur þeirra eru, aftarlega á búknum. Þeir eru sem sagt óganghæfir en eru þeim mun betri sundfuglar og þeir eru í essinu sínu þegar þeir kafa á furðu miklum hraða með gogg sem er ekkert annað en rýtingur. Dæmi eru um að himbrimi hafi drepið álft með því að kafa undir hana og stinga á hol. Já ótrúlegt en satt.

Hann er stór og glæsilegur fugl, himbriminn, og gólið í honum kallaði á útskýringar til forna og féllu til þjóðsagna. Útburðarvæl. Það er geggjað að vera á kyrru sumarkvöldi við veiðivatn og hlusta á „hláturinn“ og gólið. Einstaklega gaman líka að horfa á spennumyndir sem gerðar eru í Hollywood og gerast einhvers staðar í Suðurríkjum BNA og það eru himbrimar að góla!

Veiðimenn hafa margoft lent í því hvað himbriminn getur verð árásargjarn, ekki aðeins ef að menn eru of nálægt hreiðrinu heldur einnig ef að þeir eru að veiða á sömu slóðum. Himbriminn virðir engar svæðaskiptingar. Mörg dæmi eru um þetta en hér er eitthvað, þessi lýsing var á vef sem vinir Hlíðarvatns halda úti:

„Í fyrrasumar fór ég eitt sinn í Botnavík,  þar var meðal annarra miðaldra kona og hún rótfiskaði, en í eitt skiptið sem hún var þreyta fisk þyngdist allt í einu á línunni og endaði með því að það slitnaði og Himbrimi kom úr kafi hann hafði stolið bleikjuni frá konunni. Þetta var mjög sérstakt að verða vitni að.“

Í framhaldi af því kom Þessi færsla: „Samkeppni við himbrimann um bráðina er bara af hinu góða og eykur það yndi sem ég hef að veiðum í Hlíðarvatni. Ég veiddi vel í Botnavík sumarið 2016 og varð vitni að samskonar atburði og líst er hér fyrr, en veiðitölur úr Hlíðarvatni eru fyrirliggjandi og að mínu áliti gæti verið fróðlegt að bera saman veður og veiðitölur, frekar en að skella skuldinni á eitt eða tvö himbrimapör sem koma upp tveimur til þremur ungum.“

Og í framhaldinu kom færsla þar sem greint var frá því að himbrimi hefði ráðist á veiðimann með þeim afleiðingum að stöngin brotnaði!

Fræg er gömul saga úr einni af bókum Björns Blöndal þar sem sagt er frá göngulúnum manni sem kom að kofa Húsafellsmanna við Arnarvatn stóra á þokuskyggðu kvöldi. Þreyttur var hann, en matarlítill, þannig að hann tók bát Húsfellinga, réri út á vatn og slengdi út spún. Setti stein yfir stöngina og réri af stað, vantaði í soðið fyirr háttinn. Svo dottaði okkar maður, en rankaði svo við sér tímanlega til að ná að grípa stöngina áður en hún flaug út úr bátnum. Bátverjinn hélt auðvitað að hannværi búinn að setja í kvöldmatinn, en brá skuggalega þegar hann sá að línan lá beint upp í þokuna!. Hann barðist síðan við þetta lengi vel og loks kom í ljós að himbrimi hafði gripið spóninn og á endanum losnaði spónninn úr gini flugdrekans.