Fyrst viljum við biðjast afsökunnar á nokurra daga fjarveru. Tæknin lagði okkur í einelti, en allt er gott á ný. Veiði blaðnaði víða í vikunni sem leið, stóð í stað annars staðar en toppurinn var í Yrti Rangá þar sem 1006 laxar veiddust!.

Þar sem talsvert er af laxi veiddist nokkuð vel, enda hefur vatnsbúskapur víða batnað nokkuð eftir endalausa þurrka sumarsins. Annars staðar er fremur lítið af laxi þannig að vatnsskotið skipti ekki stórkostlegu máli. Veiðin rúllaði áfram í daufari kantinum. Veðurfarið að undanförnu speglaðist því víða aftur í aflatölum síðustu viku. Enn fremur sá árstími sem nú fer í hönd. Nokkrar ár áttu góða viku og ein alveg sturlaða!

Það má sjá eitt og annað í tölunum. Á Suðvesturlandi upp í Borgarfjörð hafa smálaxagöngur verið í lagi og veiðin yfirleitt í góðu lagi á heildina litið og víða betri en á sama tíma í fyrra. Vatnsbúskapurinn þar batnaði og vikutölurnar voru nokkuð góðar se tillit tekið til að farið er að hausta. Sumar hafa náð heildartölu síðasta árs og fleiri munu ná slíku hinu sama. Ár á þessu svæði eiga talsvert inni ef að skilyrði batna með haustinu. Úti á Snæfellsnesi voru göngurnar ekki eins hressar og sama má segja um árnar í Dölunum. Þar hefur vatnsleysi sumarsins sagt mikið til sín, en þó má vel við una gang mála í Haffjarðará eins og stundum áður. Straumfjarðará tók líka fjörbrot í liðinni viku. Laxá og Haukan, eru taldar eiga nokkuð inni ef veðurlag verður hagstæðara, en laxamagnið í þeim er samt minna en í fyrra.

Norðanlands og Norðaustan hafa árnar í besta falli verið þokkalegar, jafnvel slakar sumar hverjar.  Mun minna af stórlaxi en í fyrra og smálaxinn var seinn að skila sér. Má jafnvel segja að smálaxagöngurnar hafi verið beinlínis kraftlausar það sem af er. Miðfjarðará og Laxá á Ásum bera sem fyrr höfuð og herðar yfir aðrar ár á þessum slóðum og vikuveiðin í þeim langt yfir því sem sjá má í öðrum ám á svæðinu. Í Vopnafirði, þar sem verið hefur niðursveifla síðustu sumur, kætast menn helst vegna þess að ástandið er ekki lakara en í fyrra, bæði Hofsá og Selá hafa gefið meira en á sama tíma í fyrra og ástandið almennt heldur betra en í fyrra. Sérstaklega á það við um Selá sem var með nokkuð góða viku. Hofsá hins vegar mun lakari.

Á sama tíma eru stöku ár nánast ónýtar, t.d. Fnjóská og Svartá, þar rættist ekki úr og fer hver að verða síðastur eins og sagt er. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá stöðu mála í Breiðdalsá. VoV minnist þess varla öll þau ár sem við höfum fylgst með og unnið úr tölum angling.is, að heill mánuður í veiði skili aðeins tveimur löxum. Þeir urðu þó 25 að þessu sinni, en menn þakka því að blandað agn var nú aftur komið á dagskrá eftir fluguveiðitíma. Margir umræddra laxa veiddust til að mynda á spón. Þrátt fyrir 25 laxa viku verður samt ekki sagt að Breiðdalsá sé komin til baka.

Á Suðurlandi er þetta rólegt nema í Rangánum. Byrjuðu báðar frekar rólega, sérstaklega þó Eystri Rangá, en báðar hafa verið sterkar síðustu vikurnar og Ytri Rangá var nú með algerlega geggjaða vikutölu, 1006 laxa takk fyrir, góðir gestir. Við gefum okkur að það stafi af því að spónveiði hafi aftur komið inn í matseðil laxfiska á svæðinu. Og veiðitölur í Eystri Rangá hafa verið boðlegar síðustu vikur. Kíkjum á árnar, hverja fyrir sig og í sviga á eftir hverri vikutölu má sjá hvernig undangengnar vikur gengu.

Ytri Rangá. Óhemju góð vika þar, með 1006 laxa! (364, 472, 865, 594,717, 668, 332, 205 og 215 laxar). Áin þá komin í 5588 laxa en hafði gefið 7428 stykki á sama tíma í fyrra. Munar aldeilis enn um hinar mögnuðu stórlaxagöngur í fyrra.

Miðfjarðará. Vikuveiðin var mjög góð, eina ferðina enn, eða 302 laxar (269, 282, 213, 321, 424, 256, 453, 298, 180 og 101). Magnað hvað áin heldur háum standard.  Áin fór í 3239 laxa á 10 stangir, en 3677 laxar höfðu komið á land á sama tíma í fyrra. Þetta er jú umtalsvert lakari tala en í fyrra, en samt mjög góð útkoma sérstaklega m.t.t. erfiðra skilyrða næstum allt sumarið.

Þverá/Kjarrá. Vikan var nokkuð góð, 132 laxar (113, 177, 134, 73, 81,74, 237, 345, 248 og 152). Vatnsbúskapur allur skárri heldur en fyrir örfáumvikum síðan. Alls voru komnir 2022 laxar á land á miðvikudagskvöldið, en á sama tíma í fyrra voru þó komnir 1808 laxar á land þannig að áin er yfir veiði sama tíma í fyrra og stefnir í ágætis heildartölu. Þverá/Kjarrá er skráð með 14 stangir.

Eystri Rangá. Kom aftur upp eftir smá deyfð vikuna á undan, 135 laxar að þessu sinni (88, 284, 310, 419, 334, 137, 56, 47, 66 og 22). Áin fór í 1908 laxa, en sama tala í fyrra var 2976 laxar.

Norðurá. Vikan var góð, sú besta í sumar, gaf 220 laxa (87, 54,74, 53, 80, 129, 172,219, 184 og 158)  Vatnsbúskapur árinnar lagaðist nokkuð við vætuna á dögunum.  Talsvert er af laxi í ánni og hún er í hópi þeirra sem taldar voru eiga  talsvert inni ef að úr skilyrðum rættist. Svo er að sjá að það hafi gengið eftir. Alls voru á miðvikudaginn komnir 1662 laxar í bók. Í fyrra var sama tala 11297 laxar, sem sagt mun betra nú en í fyrra. Norðurá er skráð hjá angling.is með 12 stangir.

Blanda. Blanda hangir í þessu sæti þrátt fyrir að vera komin á yfirfall með tilheyrandi gæðahruni í veiðiskapnum. Vikan nú gaf einungis 13 laxa (27, 59, 112, 145, 161, 168, 231,143 og 102), heildartalan því komin í 1430 laxa.  Á sama tíma voru komnir 2330 laxar á land. Blanda var skráð með 4 stangir framan af á angling.is, en mest allt sumarið hefur verið veitt á 14 stangir. Ekki er ólíklegt að Langá smelli sé fyrr eða síðar upp fyrir Blöndu.

Langá. Langá mallar í svipuðu fari og síðustu vikur, gaf nú 69 laxa (77, 88, 75, 111, 90,142, 199, 201 og 170 vikurnar á undan) Heildartalan 1383 laxar og var á sama tíma í fyrra 1159 laxar. Það stefnir því í betri vertíð þetta sumarið í Langá, haft er fyrir satt að þar sé mikið af fiski og ef að rignir fyrir vertíðarlok gæti orðið mikil og góð veisla. Langá er skráð með tíu stangir.

Haffjarðará. Vikan var róleg og nánast eins og vikurnar á undan, eða 45 laxar (52, 53, 68, 104, 138, 123, 127,152 og 84). Áin fór í 1130 laxa. Á sama tíma í fyrra voru komnir 1218 laxar á land. Af tölunum má lesa að þar finna menn nú í vaxandi mæli fyrir hinum erfiðu skilyrðum. Haffjarðará er skráð með 6 stangir.

Grímsá. Vikutalan í Grímsá tók kipp miðað við vikuna á undan, gaf núna 85 laxa (50, 74, 56, 101, 93, 91,142,128 og 112). Grímsá hefur löngum haldið vatni betur en flestar ár í héraðinu og það skilar sér, en nú haustar að og tölurnar bera það með sér. Áin er nú komin í 1053 laxa en sama tala í fyrra var 464 stk, Grímsá er því einn af sigurvegurunum þetta árið og varð níunda áin til að landa fjögurra stafa veiðitölu í sumar. Grímsá er skráð fyrir 8 stöngum.

Laxá á Ásum. Hefur verið fremur lífleg sérstaklega ef miðað er við ár í sama landshluta, og vikan var fremur góð, gaf 72 laxa (80, 64, 89, 101, 98,63, 133, 107, 79 og 31). Áin var í gærkvöldi með 942 laxa, en 553 laxar voru í bók á sama tíma í fyrra. Laxá er skráð með fjórar stangir. Útlit er fyrir að Laxá á Ásum gæti orðið tíunda áin sem státar af fjögurra stafa veiðitölu

Selá. Veiðin tók kipp eftir lélega viku á undan. Vikan nú gaf 68 laxa (23, 128, 67, 93, 135, 123, 110, 95 og 27 í vikunum á undan). Heildartalan nú 904 laxar en var 794 á sama tíma í fyrra. Þetta er því betra en í fyrra. Sex stangir í Selá.

Norðlingafljót. Áin sú arna hefur allt annað eðli en aðrar ár sem hér eru teknar fyrir. Alkunna er að ólaxgengt er í Fljótið, en hafbeitarlax úr Hafnará er fluttur í ána og veiddur á stöng. Vikutalan í Fljótinu var góð, 87 laxar (116, 142, 293, 133, 55). Ágætis veiði. Stendur nú í 893 löxum en var með 570 á sama tíma í fyrra.

Elliðaárnar. Veiðin var mun lakari en vikuna á undan. Alls komu 25 (66, 23, 36, 58,70,102, 130, 107 og 110). Heildartalan núna 855 laxar en var vel á sjöunda hundraðið á sama tíma í fyrra, tölu vantar á angling.is. Elliðaárnar voru með fjórar stangir framan af,en sex stangir að undanförnu.

Laxá í Aðaldal. Vikutalan hennar var aftur slök, 39 laxar (44, 33, 49, 57, 70, 57, 146, 71 og 39), viurnar í seinni tíð keimlíkar og  í heild slakt og ekki batnandi. Bót í máli að nú ber á því að risahængarnir séu farnir að verja óðul sín af vaxandi grimmd. Sem þýðir bara eitt.Í gær var áin í 666 löxum, en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 1075 stykki.

Víðidalsá. Ekki sérlega gott í Víðidalnum, enn og aftur. Vikutalan þó örlítið skárri en þar á undan, eða 36 (20, 41, 60, 38, 72, 57, 85, 82, 76 og 55) Heildartalan hennar nú 639 laxar en var 987 laxar í fyrra. 8 stangir eru skrifaðar á Víðidalsá.

Laxá í Kjós. Harðlífi þar eins og verið hefur undanfarnar vikur, en vikan nú þó svipuð þeirri á undan sem var mun skárri heldur en vikan á undan. Vikan gaf 40 laxa (42, 17, 30, 31, 58, 69, 93, 61, 114, 45). Laxá er talin eiga mikið inni og meira sé af laxi í henni en í fyrra. Bætt vatnsstaða hefur glætt veiðina að undanförnu. Áin er komin með 631 lax, en á sama tíma í fyrra hafði 397 verið landað. Þrátt fyrir þessi vandræði er áin því samt betri en í fyrra.

Mýrarkvísl flýgur oft undir radarnum í fréttaflutningi af laxveiði, en áin er drjúg og gaf nú í vikulokin þessa 87 cm hrygnu, sem er stærsti laxinn úr ánni í sumar. Myndina tók Matthías Þór Hákonarson.

Vatnsdalsá. Svipað þar og verið hefur. Vikan gaf 39 laxa (41, 41, 40, 55, 102, 52, 65, 42, 48 og 34). Áin færðist upp í 585 laxa. Sambærileg tala frá síðasta ári var 728 laxar. Sex stanga á.

Laxá í Dölum. Átti mjög góða viku, alls 91 lax (35, 39, 85, 47, 38, 84, 33, 56 og 25). Þurrkar hafa skemmt mjög fyrir í Laxá eins og víðar en ástandið hefur batnað nokkuð. Alls eru núna 544 laxar komnir á land, en sama tala í fyrra var 1021 laxar. Fjórar stangir í ánni.

Laxá í Leirársveit. Þar var besta vikan í nokkurn tíma, gaf 58 laxa (54, 18, 11, 31, 47, 80, 64, 61 og 54). Slæm skilyrði hafa herja á ána og veiðimenn hennar, en vætan skilaði betri gangi að þessu sinni. Ástandið nokkru betra en lengst af í sumar. Vantar samt meiri rigningu. Heildartalan er 520 laxar en var 341 á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir hremmingarnar er áin því engu að síður með talsvert betri tölu en í fyrra! Laxá er talin eiga talsvert inni ef að úr skilyrðum rætist frekar.

Hofsá. Veiðin er ívið meiri en í fyrra og meira talið af fiski í ánni og betur dreifður. Vikan var þó slök arfaslök miðað við fyrri vikur, eða aðeins 15 laxar (38, 67, 55, 67,93, 46, 59, 40 og 35). Alls þá komnir 515 laxar á 6 stangir, en sama tíma í fyrra hafði 445 löxum verið landað.

Hítará. Mjög slök vika eftir góðan kipp þar á undan, en vikan nú gaf 11 laxa (64, 22, 45, 17, 50, 67, 73, 49, 23 og 10).  Með þessu færðist hún upp í 450 laxa, en í fyrra var hún með 756 laxa á sama tíma. Fjórar stangir eru skráðar á Hítará.

Haukadalsá. Miðað við síðasta sumar þá er þetta mjög rólegt í Hauku en vikan var þó nokkur framför frá lélegri viku á undan, en vikutalan nú var 38 laxar (18, 28, 38, 36, 38, 54, 48, 33, 41 og 27).  Áin hefur gefið 415 laxa. Á sama tíma í fyrra voru komnir 902 laxar úr ánni. Fimm stangir.

Flóka. Þar var aftur róleg vika með 18 skráða laxa (29, 21, 20, 22, 17,22, 47, 51 og 83). Hefur verið á þessu sama rólega róli síðustu vikurnar. Áin er samt komin í 388 lax, en 308 laxar voru komnir á sama tíma í fyrra. Betra, þrátt fyrir drómann. Þrjár stangir.

Skjálfandafljót. Hér er átt við neðri svæðin. Vikutalan hennar var með þeim hætti að verra verður það varla, eða 0 laxar (2, 7, 43, 80, 55,25, 60, 35, 22, 21)Þar með hafa veiðst 372 laxar á svæðinu. Sambærileg tala frá síðasta sumri liggur ekki fyrir. Eins og sjá má eru þetta 9 skráðir laxar á þremur vikum sem er æi anda Breiðdalsár seinni hluta sumars. Hvað Fljótið áhrærir þá gæti verið hluti af skýringunni að eitthvað vanti af skráningum, enda ekkert veiðihús og menn að senda inn skýrslur eftir dúk og disk. Ljóst er þó að verulegt harðlífi hefur verið í ánni að undanförnu.

Þverá í Fljótshlíð. Þar gekk bærilega og vikan gaf 34 laxa (47, 32, 69, 63 og 74 laxar í fyrri vikum, fleiri vikur ekki til staðar á angling.is). Áin fór þá í 365 laxa en var með 241 á sama tíma í fyrra.

Straumfjarðará. Besta vikan í Straumu í svo að segja allt sumar, alls komu 65 laxar á land (37, 8, 21, 9, 25, 44, 51, 16, 42 og 18). Hún er núna með 336  lax á þrjár stangir en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 324 laxar.

Jökla. Slakt í Jöklu og nú eru sveiflur milli vikna. Gæti farið eftir ástundun. Áin gaf nú 13 laxa (29, 10, 53, 60, 35, 50, 50, 18 og 12). Alls 330 laxar en í fyrra voru þetta 520 laxar á sama tíma.

Svalbarðsá. Dalaði verulega frá fyrri vikum, gaf nú 17 laxa (46, 30, 41, 16, 52, 31, 32 og 16 laxar). Áin þá komin í 305 laxa, en tala yfir ána frá sama tíma í fyrra liggur ekki fyrir en var 318 laxar í sambærilegri viku á undan.

Hrútafjarðará. Fastir liðir eins og v enjulega í Hrútu og vikan mjög í anda nokkurra hinna undangengnu, gaf 31 lax (25, 33, 22, 93, 32,10, 45, 13). Áin þá komin með 266 laxa en var með 402  á sama tíma í fyrra.

Búðardalsá.  Vikuveiðin nú var 28 laxar (11, 23, 23, 20 og 21 lax(ar) í fyrri vikum). Áin fór þar með í 238 laxa í sumar.

Laugardalsá. Hefur verið mjög róleg í allt sumar. Vikan gaf 21 lax (13, 9, 14, 12, 15, 20, 28, 10, 13) Áin hefur gefið 165 laxa en í fyrra voru 199 laxar á sama tíma. Afskaplega keimlík vertíðin sem sagt.

Affall. Affallið var með viku upp á 15 laxa (22, 37, 24, 26 laxar í þremur fyrri vikum). Heildarveiðin er nú 153 laxar, en 518 höfðu veiðst á sama tíma í fyrra.

Svartá. Sama deyfðin yfir Svartða og vikan gaf aðeins 6 laxa (4, 2 ,12, 25, 11, 15, 9, 17, 6 og 5) Veitt á fjórar stangir. Áin þá komin í 110 laxa en í fyrra höfðu  318 laxar veiðst á sama tíma.

Fnjóská. Slök sem fyrr. Eiginlega bara léleg, eða jafnvel ónýt, hvað sem veldur. Vikan nú gaf aðeins 15 laxa (10, 7, 12, 14, 12, 4, 7, 6 og 7 laxar). Alls frá opnun 99  laxar en voru 167 á sama tíma í fyrra. Ljóst er að áin á möguleika að ná þriggja stafa tölu!

Breiðdalsá. Hvað er með Breiðdalsá? Jæja lífsmark í vikunni, alls 25 laxar á land (0, 0, 2,0,10, 10, 8 og 12).  Menn þakka þessa 25 laxa veiði að blandað agn var aftur á matseðlinum í ánni, en flestir umræddra laxa munu hafa veiðst á spón. Veitt á sex stangir. Alls komnir 80 laxar á land, en á sama tíma í fyrra voru 345 laxar komnir á land.