Veðurfarið að undanförnu speglast í aflatölum síðustu viku. Þurrkar og mikil hlýindi eru ekki það besta, ár að verða vatnslitlar og dregur víða úr göngum þó að smálaxinn hafi tekið aðeins við sér fyrir norðan. All nokkrar ár áttu samt góða viku.

Það má sjá eitt og annað í tölunum. Á Suðvesturlandi upp í Borgarfjörð hafa smálaxagöngur verið góðar og veiðin yfirleitt í góðu lagi og víða betri en á sama tíma í fyrra. Nú hefur hins vegar dregið úr göngum og veðurfar verið óhagstætt með hratt minnkandi vatni. Út á Snæfellsnesi voru göngurnar ekki eins hressar og sama má segja um árnar í Dölunum. Þar segir minnkandi vatn einnig til sín. Norðanlands og Norðaustan. hafa árnar í besta falli verið þokkalegar, mun minna af stórlaxi en í fyrra og smálaxinn seinn að skila sér. Hann hefur verið að koma um og eftir síðasta stórstraum, en hversu sterkar göngurnar eru liggur þó ekki fyrir. Á svæðinu eru ár sem eru þó sitt hvoru megin á skalanum, Selá á uppleið, Hofsá verið slök en átti þó sína bestu viku á meðan stöku ár eru nánast ónýtar, t.d. Fnjóská og Svartá, þó að enn geti ræst þar úr. Á Suðurlandi er þetta rolegt nema í Rangánum. Byrjuðu báðar frekar rólega, sérstaklega þó Eystri Rangá, en báðar hafa sótt verulega í sig veðrið og Ytri Rangá toppaði eigin bestu viku fram til þessa. Þverá er einnig lífleg.

Kíkjum á árnar, hverja fyrir sig og í sviga á eftir hverri vikutölu má sjá hvernig undangengnar vikur gengu.

Ytri Rangá. Annað risastökk þar 717 laxar (668, 332, 205 og 215 laxar). Áin þá komin í 2287 laxa en hafði gefið 4416 stykki á sama tíma í fyrra. Þessi laxagusa hefur komið Ytri Rangá í toppsætið yfir fjölda veiddra laxa. Er hún það langt á undan næstu ám að það má eiginlega láta vta strax að hún verður hæst þegar talið verður uppúr kössunum.

Miðfjarðará. Vikuveiðin var mjög góð, 424 laxar (256, 453, 298, 180 og 101). Magnað hvað áin heldur háum standard þar sem skilyrði hafa ekki verið auðveld og vatn minnkandi.  Fór í 1882 laxa á 10 stangir, en 2337 laxar höfðu komið á land á sama tíma í fyrra.

Þverá/Kjarrá. Vikan gaf 81 lax, (74, 237, 345, 248 og 152). Svipað og vikuna á undan. Minnkandi vatn og hitaviðri hafa sett mark sitt á ána. Alls voru komnir 1393 laxar á land í gærkvöldi, en á sama tíma í fyrra voru þó komnir 1383 laxar á land þannig að áin er enn yfir veiði sama tíma í fyrra þó að tvær síðustu vikurnar hafi verið erfiðar. Þverá/Kjarrá er skráð með 14 stangir.

Norðurá. Vikan gaf 80 laxa (129, 172,219, 184 og 158) Dalar af sömu ástæðum og aðrar á svæðinu. Mjög jöfn veiðin í Norðurá síðustu vikurnar og þetta verður að teljast viðunandi miðað við hlýindi og bjart veður. Alls voru í gærkvöldi komnir 1175 laxar í bók. Í fyrra var sama tala 1000, sem sagt betra nú. Norðurá er skráð hjá angling.is með 12 stangir.

Blanda. Síðasta vika skilaði 161 laxi (168, 231,143 og 102), heildartalan því komin í 1074 laxa. Þrátt fyrir þokkalegar vikutölur munar afar miklu á sama tíma í fyrra þegar, skv angling.is, voru komnir 1858 laxar á land. Blanda var skráð með 4 stangir framan af á angling.is, en nú er keyrt á öllum 14 stöngum árinnar.

Tryggvi Þorsteinsson, Jón Jónsson, Langá
Veiðin hefur gengið vel í Langá. Hér er Tryggvi orsteinsson með fallegan smálax úr ánni. Mynd Jón Jónsson.

Langá. Vikan var góð m.t.t. skilyrða og mikið er af laxi. Tala vikunar var 90 laxar (142, 199, 201 og 170 vikurnar á undan) Heildartalan 963 laxar og var á sama tíma í fyrra 825 laxar. Langá er skráð með tíu stangir.

Haffjarðará. Vikan gaf 138 laxa, sem er mjög gott miðað við skilyrði sem voru yfirleitt óhagstæð, (123, 127,152 og 84). Áin fór í 808 laxa. Á sama tíma í fyrra voru komnir 907 laxar á land. Haffjarðará er skráð með 6 stangir.

Grímsá. Hún er á góðu róli en vikan var samt með lakara móti aðra vikuna í röð, 93 laxar komu á land, (91,142,128 og 112). Áin er nú komin í 687 laxa, en sama tala í fyrra var 301 laxar. Grímsá er skráð fyrir 8 stöngum.

Eystri Rangá. Er öll að hressast, vonandi vísir að einhverju meira. Vikan þar gaf nú 334 laxa sem er það lang mesta til þessa og nú þekkja menn loks Eystri sína, (137, 56, 47, 66 og 22). Áin fór í 672 laxa, en sama tala í fyrra var 2154 laxar.

Elliðaárnar. Vikan var viðunandi, en skilyrðin settu mark sitt eins og víðar. Alls komu 70 laxar á land (102, 130, 107 og 110). Heildartalan núna 647 laxar en var 502 laxar á sama tíma í fyrra. Elliðaárnar voru með fjórar stangir framan af,en sex stangir að undanförnu.

Laxá á Ásum. Tók aftur við sér eftir fremur slaka viku á undan. Vikan gaf 98 laxa (63, 133, 107, 79 og 31). Áin var í gærkvöldi með 536 laxa, en 385 laxar á sama tíma í fyrra. Laxá er skráð með fjórar stangir.

Selá. Hún átti sína bestu viku til þessa. Vikan nú gaf 135 laxa (123, 110, 95 og 27 í vikunum á undan). Heildartalan nú 525 laxar en voru 504 á sama tíma í fyrra. Sex stangir í Selá.

Laxá í Kjós. Hún var með viku upp á 58 laxa (69, 93, 61, 114 og 45) Erfitt tíðarfar að halda veiðinni niðri eins og víðar. Laxá var þá komin í 471 lax, en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 272 laxar.

Víðidalsá. Vikutalan hennar var 72 laxar (57, 85, 82, 76 og 55) Heildartalan hennar nú 444 laxar en var 617 laxar í fyrra. 8 stangir skrifaðar á Víðidalsá.

Laxá í Aðaldal. Vikutalan hennar var 70 laxar (57, 146, 71 og 39), nokkrar sveiflur þarna á ferðinni. Í gær var áin í 444 löxum, en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 712 stykki.

Vatnsdalsá. Jöfn veiði en róleg. Samt besta vikan í sumar og smálax að láta á sér kræla. Vikan gaf  102 laxa (52, 65, 42, 48 og 34). Áin færðist upp í 369 laxa. Sambærileg tala frá síðasta ári var 478 laxar. Sex stanga á.

Laxá í Leirársveit. Rólegt vikan með aðeins 47 laxa (80, 64, 61 og 54). Slæm skilyrði að herja á ána og veiðimenn hennar. Heildartalan 334 laxar en voru 228 á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir hremmingar er áin því engu að síður með betri tölu en í fyrra!

Hítará. Vikan gaf 50 laxa (67, 73, 49, 23 og 10). Jöfn veiði síðasta hálfa mánuðinn en aðeins að dala vegna erfiðra skilyrða. Með þessu færðist hún upp í 291 lax, en í fyrra var hún með 507 á sama tíma. Fjórar stangir eru skráðar á Hítará.

Flóka. Þar var slök vika, talan var 17 laxar (22, 47, 51 og 83). Áin er komin í 278 laxa, en 236 laxar voru á sama tíma í fyrra. Betra, þrátt fyrir dalandi vikuveiði. Þrjár stangir.

Hofsá, menn bíða eftir að sjá framvindu hennar eftir öldudal síðustu sumra. Hún byrjaði vel, en lítið í gangi síðan, þangað til núna að áin var með sína bestu viku á sumrinu. Vikan skilaði 93 löxum (46, 59, 40 og 35). Alls þá komnir 273 laxar á 6 stangir, en sama tíma í fyrra hafði 265 löxum verið landað. Það þótti arfa slakt þannig að ekki eru horfur á því að áin sé að koma upp aftur þetta árið. Nema að þessi síðasta vika sé ávísun á algeran viðsnúning, sem væri auðvitað hið besta mál.

Stóra Laxá. Ekki var nú vikan alveg nógu góð austur í Hreppum, aðeins 15 kvikindi (52, 10, 46 og 117). Áin þá komin í 272 laxa. Á sömu dagsetningu í fyrra voru komnir 155 laxar á land. Enn státar Stóra því af betri tölu en á sama tíma í fyrra. Tíu stangir.

Haukadalsá. Að slakna á henni í bili a.m.k. Hún var með 38 laxa viku (54, 48, 33, 41 og 27)  Áin hefur gefið 257 laxa. Á sama tíma í fyrra voru komnir 629 laxar úr ánni. Fimm stangir.

Laxá í Dölum. Vikan gaf aðeins 38 laxa, slakt í framhaldi af lang bestu viku sumarsins (84, 33, 56 og 25). Alls því núna 247 laxar, en sama tala í fyrra var 509 lax. Fjórar stangir í ánni.

Straumfjarðará. Frekar dauf hún Strauma. Vikan gaf 25 laxa (44, 51, 16, 42 og 18). Hún er núna með 196 laxa á þrjár stangir en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 170 laxar. Hún er því þrátt fyrir rólegheitin komin með betri tölu en á sama tíma í fyrra.

Jökla. Vikan gaf 35 laxa, (50, 50, 18 og 12). Sú gamla aðeins að gefa eftir. Alls 165 laxar en í fyrra voru þetta 306 laxar á sama tíma.

Svalbarðsá. Síðasta vikan gaf 52 laxa (31, 32, 16, en 24 þar á undan í „stuttri“ viku) Með þessu fór áin í 155 laxa. Á sama tíma í fyrra hafði 217 löxum verið landað.

Deildará. Vikan gaf 21 lax, (25, 27, 34 og 23 laxar). Komin í 139 laxa en tala frá sama tíma í fyrra liggur ekki fyrir. Þrjár stangir.

Þverá í Fljótshlíð. Loks komin inn á lista. Þar var hörku vika, alls 74 laxar. Áin fór þá í 120 laxa en var með 149 á sama tíma í fyrra. Fyrri vikuveiðitölur liggja ekki fyrir.

Breiðdalsá. Enn er afar rólegt í Breiðdalnum, en hlýtur að fara að koma til. Vikan gaf 13 laxa, (10, 10, 8 og 12).  Veitt á sex stangir. Alls komnir 53 laxar á land, en á sama tíma í fyrra voru  150 laxar komnir á land.

Svartá. Vikan skilaði 15 löxum (9, 17, 6 og 5) Veitt á fjórar stangir. Áin þá komin í 52 laxa en í fyrra hafði 181 lax veiðst á sama tíma.

Fnjóská. Slök sem fyrr það sem af er. Vikan gaf aðeins 12 laxa (4, 7, 6 og 7 laxar).  Eiginlega ferleg útkoma, en samt besta vikan. Alls frá opnun 41 lax en voru 139 á sama tíma í fyrra.

Affall. Er nú komið inn á lista í fyrsta sinn eins og Þveráin. Þar var mjög slök vika upp á 6 laxa sem færði heildarveiðina í 29 laxa, en 253 höfðu veiðst á sama tíma í fyrra.