Ekki aðeins laxgengdin hefur haft mikil áhrif á Elliðaárnar

Elliðaárnar, Hjördís Freyja, Símastrengur, Golli
Hjördís Freyja Kjartansdóttir með fallega hrygnu úr Símastreng í Elliðaánum fyrir skemmstu. Var hennar fyrsti flugulax ein og óstudd, flugan var Sweep númer 16. Mynd Golli.

Elliðaárnar hafa komið skemmtilega út í sumar. Nóg af laxi og veiði góð. En Ásgeir Heiðar, sérfræðingur í ánum, segir að annað en góðar göngur hafi sett mark sitt á vertíðina…

„Elliðaárnar eru engu líkar miðað við fyrri ár. Það er vatnsmagnið sem er annað og meira en menn muna eftir. Þess eru mörg dæmi að vanir menn komi í árnar í sumar og finni ekki gömlu góðu veiðistaðina. Þar sem áður var falleg breiða er nú bara æðandi strengur. Menn finna ekki fiskinn en samt er nóg af honum. Sem dæmi þá hefur Teljarastrengur varla haldið fiski í sumar, en beygjan fyrir neðan er allt í einu orðin sjóðheitur veiðistaður. Sjávarfossinn hefur af sömu sökum ekki gefið nærri eins mikið og oftast áður en aftur á móti eru Breiðan þar fyrir neðan, og jafnvel Brúarbreiðan sem sjaldan gefur, orðnir aðal staðirnir. Þessar aðstæður kalla á menn að hugsa út fyrir boxið. Sjálfum finnst mér það frábært,“ sagði Ásgeir í samtali við VoV.

En hvað veldur, snjór er jú allur farinn af heiðinni? „Ég hef borið þetta undir sérfræðinga hjá Rafveitunni og þeir segja að mikil úrkoma samfara því að sjaldan eða aldrei fraus seinni hluta vetrar hafi valdið því að grunnvatnsstaðan er nú meiri en menn muna og nánast erfið viðureignar. Menn muna eflaust hvernig allt var á flotið upp með Hólmsá undir lok vetrar. Enn er mikið vatn þar og ef litið er á litla lækinn sem kemur ofan úr heiðinni við Lögberg, þá er hann enn bullandi foss,“ sagði Ásgeir.

Og hann sagði meira, ástandið á vatnsbúskapnum hefði breytt veiðinni. Hún væri nú fluguveiðivænni og að sumu leyti fallegri. T.d. væri brúni ógeðfelldi þörungurinn, Vatnaflókinn, nú horfinn, en á hinn bóginn komið mikið af fallegu grænu slýi sem væri ólíkt geðslegra þó að stundum þyrfti að hreinsa það af flugunni.“