Laxveiðin fór almennt líflega af stað, en er þó víðast nokkru lakari en á sama tíma í fyrra. Þó er víða stígandi þó að svo sé ekki alls staðar í viðmiðunarám angling.is Það eru ákveðin tímamót núna. Hér kryfjum við ítarlega vikutölurnar…
Þverá/Kjarrá vermir enn toppsætið með hæstu töluna, 1001 lax, en Norðurá og Miðfjarðará eru nokkuð að baki og spurning hvort að þær ná fjögurra stafa tölunni yfir næstu vikuna. Á sama tímapunkti í fyrra voru fjórar aðrar ár komnar í fjóra stafi og langt þar yfir ef út í það er farið. Þetta voru báðar Rangárnar, Blanda og Miðfjarðará.
Hvort að frekari glæðing komi í veiðina fer eftir árferði og hvort að aukinn kraftur komi í smálaxagöngur. Sums staðar eru þær nokkuð góðar, sérstaklega á suðvestan- og vestanverðu landinu. Norðanlands eru þær dræmari, en menn halda í vonina að enn geti þær komið, enda eru þær jafnan seinni á ferð í þeim landshluta heldur en sunnan heiða. Stórlaxagöngurnar eru samkvæmt tölunum í besta falli þokkalegar.
Eins og getið var um í inngangi þá var byrjun vertíðarinnar almennt mjög lífleg, en síðan hægði á hjólunum. Núna, þegar komið er fram í miðjan júlí eða svo þá er fróðlegt að skoða landslagið og miða þar við viðmiðunarár þar sem angling.is birtir vikulegar tölur. Í morgun vantaði í úttektina nýjar tölur úr Elliðaánum, Langá, Laxá í Leirársveit, Selá, Hofsá og Laugardalsá.
Veiðislóð hafði því 26 tölur til að vinna með og í tuttugu tilvikum voru heildartölur miðað við sama tíma í fyrra lakari, í hinum sex tilvikunum betri. Í einstaka tilvikum er um mikinn mun til hins verra, t.d. Blanda og báðar Rangárnar, en meira um það hér neðar.
Á jákvæðari nótum þá var vikuveiðin betri en vikuna á undan í sextán ám, lakari þó í tíu. Urriðafoss í Þjórsá vantar allt bakland í svona viðmiðunartölum vegna þess að hann er nýr stangaveiðistaður, en hann heldur góðum tölum og þó að hann sé í tölum talið í fimmta sæti þá er hann með lang bestu meðalveiðina á stöng. Kraftur er í smálaxagöngum þar.
Við skulum líta á statistíkina eftir síðustu veiðiviku, kryfja til mergjar og bera saman við sama tíma í fyrra. Víða var góður stígandi frá fyrri viku ,en lang flestar árnar eru samt nokkuð frá þeim tölum sem sjá mátti í fyrra. Í Þetta skipti munum við setja inn í sviga veiðitölu fyrri viku til að lesendur sjái betur hvað er í gangi.
Þverá/Kjarrá. Vikan gaf 345 laxa (248, vikan þar á undan 152). Alls var kominn 1001 lax 656 á land í gærkvöldi, það er góður stígandi en á sama tíma í fyrra voru þeir 1003, ómarktækur munur uppá 2 laxa. Þverá/Kjarrá er skráð með 14 stangir.
Norðurá. Vikan gaf 219 laxa (184 laxa, vikan þar á undan 158 laxa. Alls voru í gærkvöldi komnir 794 laxar í bók. Í fyrra var sama tala 801, lakara nú, en samt varla marktækt, eða 7 laxar. Norðurá er skráð hjá angling.is með 12 stangir.
Miðfjarðará. Vikuveiðin var 298 laxar (180 í síðustu viku og 101 lax í þar síðustu viku, mikill stígandi) Fór í 749 laxa á 6 stangir. Verið líflegt í Miðfjarðará en hún er samt nokkuð frá sinni tölu frá sama tíma í fyrra, þegar 1077 laxar höfðu komið á land.
Ytri Rangá. Vikan í henni gaf 205 laxa (215 laxar í vikunni á undan) og hækkaði hún þannig í 570 laxa. Ytri er skráð fyrir 18 stöngum. Þetta er all nokkuð frá „sama tíma tölu“ í fyrra þegar 1720 laxar höfðu veiðst.
Blanda. Síðasta vika skilaði 143 löxum…(… og vikan á undan 102 löxum), heildartalan því komin í 514 laxa. Hér munar afar miklu á sama tíma í fyrra þegar, skv angling.is, voru komnir 1300 laxar á land. Blanda var skráð með 4 stangir framan af á angling.is, en nú er keyrt á öllum 14 stöngum árinnar.
Haffjarðará. Vikan gaf 108 laxa (152 í vikunni á undan , 84 í vikunni þar á undan). Áin fór í 420 laxa. Á sama tíma í fyrra voru komnir 565 laxar á land. Haffjarðará er skráð með 6 stangir.
Grímsá. Hún er á góðu róli. Vikutalan þar var 128 laxar (112 laxar í vikunni á undan). Áin er nú komin í 361 lax, en sama tala í fyrra var 109 og er Grímsá þar með ein af sex viðmiðunarám sem státa af hærri tölu nú heldur en á sama tíma í fyrra. Grímsá er skráð fyrir 8 stöngum.
Laxá í Kjós. Hún var með frekar rólega viku, 61 lax (114 laxa í fyrri viku og hafði rifið sig aðeins upp, 45 laxa vika þar á undan). Laxá flutti sig upp í 251 lax á sínar átta stangir. Þrátt fyrir þessar sveiflur milli vikna er Laxá ein sex áa með hærri heildartölu miðað við sama tíma í fyrra, eða 251 lax nú á móti 162 þá.
Laxá á Ásum. Byrjaði seint og fór ágætlega af stað. Vikan þar gaf 107 laxa (79 laxa í fyrri viku, en vikan á undan henni var með 31 lax). Áin hækkaði því úr 135 í 242. Áin er ein af sex í öllum þessum pakka sem er með hærri tölu en á sama tíma í fyrra, 242 núna á móti 163 í fyrra. Laxá er skráð með fjórar stangir.
Víðidalsá. Vikutalan hennar var 82 laxar (76 laxar þar á undan og 55 laxar í þar síðustu. Heildartalan hennar nú 230 laxar en var 331 lax í fyrra. 8 stangir skrifaðar á Víðidalsá.

Stóra Laxá. Vikutalan var 46 laxar (117 laxar í fyrri viku laxa). Áin þá komin í 195 laxa. Þetta er betri veiði en í fyrra því að þann 13.7 í fyrra var áin með 96 laxa. Stóra er því ein af sex sem er betri en á sama tíma í fyrra á viðmiðunarlista angling.is. Tíu stangir.
Flóka. Er á þokkalegu róli, var með 51 lax yfir vikuna (Þar á undan 83 laxa viku). Áin er komin í 192 laxa, en 182 laxar voru á sama tíma í fyrra. Betra, en lítill munur samt. Þrjár stangir.
Laxá í Aðaldal var með 65 laxa viku (39 laxa viku þar á undan, en þar síðasta vika var með 41 lax). Áin er með 165 laxa, en á sama tíma í fyrra hafði 378 löxum verið landað.
Vatnsdalsá. Vikan þar gaf 42 laxa (48 laxa vikuna á undan, en sú á undan henni 34 laxa). Áin færðist upp í 150 laxa. Sambærileg tala frá síðasta ári var 292 laxar. Sex stanga á.
Eystri Rangá. Vikan þar gaf nú 47 laxa (66 laxa vikuna á undan, en þar síðasta vikan gaf 22 laxa). Áin fór í 145 laxa, en sama tala í fyrra var 1442 laxar. Mögnuð niðursveiflan þar.
Haukadalsá. Hún var með 33 laxa viku (41 lax í fyrri viku, þar síðasta með 27 laxa) Áin hefur gefið 117 laxa. Á sama tíma í fyrra voru komnir 149 laxar úr ánni. Fimm stangir.
Hítará. Hún var með 49 laxa viku, 23 laxa fyrri viku, en aðeins 10 laxa í vikunni á undan). Stígandi hér á ferð. Með þessu færðist hún upp í 101 lax, en í fyrra var hún með 239 á sama tíma. Fjórar stangir eru skráðar á Hítará.
Laxá í Dölum. Vikan gaf 56 laxa (25 laxar í fyrri viku). Alls því núna 92 laxar, en sama tala í fyrra var 218 laxar. Fjórar stangir í ánni.
Straumfjarðará. Vikan í henni var róleg, 16 laxar (42 í fyrri viku, 18 í vikunni á undan). Hún er núna með 76 laxa á þrjár stangir en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 95 laxar.
Deildará. Vikan gaf 34 laxa (23 laxar í vikunni á undan). Komin í 74 laxa en tala frá síma tíma í fyrra liggur ekki fyrir. Þrjár stangir.Við höfum ekki samanburðartölu frá síðasta ári, en munum glöggt að hún fór fanta vel af stað með fínar stórlaxagöngur.
Fnjóská. Kom nú smá kærkomið lífsmark í hana. Hún skilaði 54 laxa viku (7 laxa fyrri vika sem kom á eftir viku sem gaf einn lax). Áin er í 66 löxum á átta stangir en á sama tíma í fyrra voru komnir 94 laxar úr ánni.
Svalbarðsá. Byrjaði vel, en vikan gaf 16 laxa (fyrri vika var ekki heil vika), en með þessu fór áin í 40 laxa. 85 höfðu veiðst á sama tíma í fyrra.
Jökla. Vikan gaf 18 laxa, fyrri vikan tólf. Alls 30 laxar en í fyrra voru þetta 100 laxar á sama tíma.
Hrútafjarðará. Vikan gaf 13 laxa (fyrri vikan 12 laxa) Er með 25 laxa á þrjár stangir. Á sama tíma í fyrra voru 88 laxar komnir á land.
Breiðdalsá. Vikan gaf 8 laxa en fyrri vikan með 12 laxa á 6 stangir). Á sama tíma í fyrra voru 62 laxar komnir á land.
Svartá. Vikan skilaði 6 löxum (fyrri vika skilaði 5 löxum á fjórar stangir). Í fyrra höfðu 70 laxar veist á sama tíma.









