
Það komu nýjar veiðitölur á angling.is í kvöld og við kryfjum þær til mergjar í annarri frétt á síðunni. En Laxá í Dölum opnaði í morgun (miðvikudag) og fór vel af stað.
Alls var átta löxum landað á fjórar stangir í Laxá. Allt boltafiskar og lítið komið af smálaxi enn sem komið er. Margir misstust og lax var víða að sjá í hyljum, þannig að opnunin telst lífleg þó að sums staðar hafi sést hærri tölur.
Eins og fram kemur að ofan, þá kryfjum við tölur kvöldsins í annarri frétt, en getum skotið hér inn nokkrum nýjum tölum sem ekki stóðu undir krufningu í hinni fréttinni. Skjálfandafljót 43 laxar, Laxá í Leirársveit 38 laxar, Selá í Vopnafirði 35 stykki, Eystri Rangá 32 laxar, Hítará 29, Straumfjarðará 18 og Fnjóská heila fimm!
Þá höfum við heyrt að menn hafi verið að tína upp laxa í Húseyjarkvísl, að fyrstu laxarnir séu komnir á land úr Korpu og að opnunarhollið í Gljúfurá í Borgarfirði hafi landað 9 löxum á einum og hálfum degi.