Við höldum áfram og hér er komin fjórða greinin af þó nokkrum sem munu birtast hér á næstu misserum þar sem við reynum að svara margvíslegum spurningum sem vakna á bökkum vatnanna. Hér spyrjum við hvað til bragðs skuli taka við breytilegar aðstæður.
Súld?
JE: Sama gildir hér og í sól og logni. Yfirleitt er mjög hægur vindur eða logn í súld og maður getur oft séð uppitökur. Það hjálpar auðvitað því maður er alltaf að reyna að finna út og lesa af vatninu hvar fiskurinn er að éta. Þá er það mjög smáar flugur og langur taumur.
BM: Þegar það er súld og suddi veit maður að það verður ekki mikið um skordýr á flugi, ef það eru skúrir þá getur verið ágætt að reyna þurrflugu með en yfirleitt myndi ég sjálfur veðja á nymphu/púpu í þessum aðstæðum, þyngda eða óþyngda eða reyna fyrir mér með litlum streamer.
RH: Þetta eru frábær skilyrði fyrir urriða
Þoka?
JE: Maður lendir ekki oft í því að veiða í þoku og oftast er annað hvort kalt í þokunni, eða að hún leggst skyndilega yfir og þá snöggkólnar. Maður hefur upplifað að þá hreinlega deyi svæðin. Það sem hefur reynst mér best við þessar aðstæður er að finna staði þar sem ég get veitt andstreymis með púpu.
BM: Hef nú ekki tekið eftir neinu trendi milli þoku og hegðun fisks, einna helst að oft kólnar þegar þokan kemur og dimmir yfir, svo maður myndi búast við því að stærri fiskur færi á ferð og myndi leita sér að auðveldum bita. En ætli það gæti nú líka bara flokkast undir óskhyggju.
Rigning, stillt og hlýtt?
JE: Þetta er gott veiðiveður og mér þykir skemmtilegast að veiða á litlar straumflugur og litlar votflugur eins og Pennel og Tiel and black við þessar aðstæður, sérstaklega á veiðistöðum sem maður þekkir vel. Ef að þessi skilyrði detta inn að vori er líka gott að nota púpur andstreymis. Sé komið fram á sumar er mjög oft að flugnaklak vaknar við svona aðstæður og þá er um að gera að vera vakandi fyrir þurrflugunni.
BM: Aukið súrefni fylgir rigningunni og er alltaf gott fyrir veiðimenn. Þarna myndi ég reyna að vera rétt undir yfirborðinu, þurrfluga sem tökuvari og lítill kúluhaus og nánast bara taka slakan.
Rigning og rok?
JE: Þá hef ég nú tilhneigingu til að vera í kofanum og bíða eftir að veðrið slaki á klónni. En sé ég úti að veiða þá er leitað með straumflugum. Í tiltölulega lygnum straum kasta ég á móti vindinum, en sé lítill straumur á veiðistaðnum leitar fiskur gjarnan upp í ölduna og þá er gott að kasta undan vindi á lygnari bletti þar sem var er að finna.
BM: Leiðindaaðstæður til að fara út en oft góð veiði. Þarna eins og alltaf í roki skiptir máli að komast niður fyrir ölduna. Hvort sem maður notar bara flotlínu með löngum taum og þungaflugu eða sökktauma er ekki aðalatriði, bara koma þessu undir.
RH: Þetta eru frábær skilyrði á urriðaslóðum.
gg: Frábært veiðiveður fyrir sjóbirting, sérstaklega þegar um hlýja haustlægð er að ræða. Svona skilyrði geta þó verið erfið ef vindurinn er í fangið, en sé spónn leyfilegur þá leysist það mál umsvifalaust, menn stíga þá bara fram í vinstri fót og skjóta járninu með toppinn eins nærri vatnsborðinu og frekast er kostur. Í þessu veðri eltir birtingurinn oft alveg upp að bakka áður en hann tekur og gildir það um bæði spón og fluguna.