Við höfum beðið nokkra veiðimenn og konur að rifja upp bestu minningar síðasta sumars og reifa væntingar sínar fyrir vertíðina 2017.

„Þrjár veiðiferðir standa einkum upp úr frá sumrinu 2016. Venju samkvæmt (fyrir utan örlitla upphitun í apríl í Varmá og Elliðaánum í maí) hófst veiðisumarið með árlegum veiðitúr í Laxá í Mývatnssveit í blábyrjun júní.

Hópurinn hefur ýmist lent í rjómablíðu eða frosti og snjókomu á þessum tíma en í fyrra skein sólin sem aldrei fyrr og í þeirri náttúrufegurð sem þar ríkir var hver vakt hátíð fyrir augu og eyru. Á Helluvaði setti ég í vænan ríflega 65 sm urriða sem lét mig hafa fyrir hlutunum og í löndun sá ég fluguna losna úr kjaftinum á honum en til allrar hamingju var ég fljótari en hann að átta sig á stöðunni og tók hann upp í straumskilunum flugulausan.

Steingrímur Sævar Ólafsson, Hörgá
Steingrímur með flottan urriða úr Hörgá.

Ekki síður var árleg ferð í Ólafsfjarðará eftirminnileg en þar lenti ég í ótrúlegri göngu seinni part júlí og landaði nærri 50 fiskum, þar af 30 fyrir hádegi. Í tvígang var ég með tvo á í einu og það er alltaf skemmtileg tilfinning að fylgjast með átökunum sem eiga sér stað rétt undir yfirborðinu. Ég þarf náttúrulega ekki að taka fram að nær öllum fiskunum var sleppt aftur í blessaða Ólafsfjarðará!

Loks ber að nefna síðasta veiðitúr sumarsins sem var í Djúpá. Enn og aftur lék veðrið við mig en í einhverju stundarbrjálæði, lagði ég laxveiðistönginni minni og tók upp fimmuna mína, setti míkrótúpu undir og kastaði í strenginn á neðsta veiðistað. Í öðru kasti fékk ég neglu og fimman kengbognaði. Það tók á að halda laxinum á en með góðri hvatningu veiðifélaganna náði ég að landa laxinum. „Hann er stærri en Justin Bieber“ sagði einn veiðifélaginn og það festist. Félagarnir köstuðu í strenginn en ekkert gerðist. Þegar röðin kom að mér aftur, horfði ég fyrst á laxastöngina en glotti svo við tönn og tók aftur fimmuna. Kastaði og viti menn, ég tók annan lax á fimmuna á nákvæmlega sama stað og landaði honum.

Ólafsfjarðará
Aðstæður kannaðar við Ólafsfjarðará.

Veiðisumarið í ár verður hefðbundið. Ég kastaði hrollinn úr mér í Varmá í aprílbyrjun, sex vænir á land þar. Svo er það urriðinn í Elliðaánum í byrjun maí áður en það kemur að Laxá í Mý í byrjun júní. Seinni part júlímánaðar og í byrjun ágústmánaðar tekur svo aðalveiðitími silungsveiðimannsins við. Ég fer venju samkvæmt í Hörgá, Ólafsfjarðará og Eyjafjarðará, Svarfaðardalsá heilsar mér einnig veiðidag, og svo er aldrei að vita nema ein og ein önnur á taki við. Hófleg bjartsýni einkennir væntingar mínar til sumarsins. Einhver ónotatilfinning í maganum segir mér að sumarið verði ekki það besta í manna minnum en að veiðimannasið ber ég höfuðið hátt og hlakka til að takast á við silunginn í sumar.“