Sjóbirtingsvertíðin fer jafnan seinna af stað í Laxá í Kjós heldur en gengur og gerist, væntanlega til að lágmarka álagið á fiskinn en nýta hann þó. Veiðin fór afar vel af stað í lok vikunnar.

Jón Þór Júlíusson leigutaki Laxár sagði að það hefði verið fjör frá fyrstu mínútum og hver fiskurinn af öðrum verið dreginn á þurrt….og sleppt því slíkar reglur gilda þar. Eins og sjá má af myndum með þessu, myndum sem Jón Þór lét VoV í té, voru sumir birtinganna stórir, enda áin þekkt fyrir slíkt hin seinni ár.
Eins og svo oft áður var Káranesfljótið besti veiðistaðurinn. Þar bunkar birtingurinn sig jafnan þegar líður að sumri.











