Þeir eru kræfir krummarnir við Hlíðarvatn og hafa ýmsir lent í þeim. Fyrir skemmstu heyrðum við skemmtilega sögu af þeim og kveikti frásögnin sú skemmtilegar minningar.
En það voru tveir félagar þarna um daginn og lentu þeir í „heimsókn“ krumma. Þegar félagarnir hugðust vitja um nesti sitt var krummi búinn að stela því. Utandyra var allt á floti í AB mjólk og goggfar í fernunum. Einnig hafi krummi á brott með sér fjórar skyrdollur.

Þetta minnti ritstjóra óneitanlega á veiðitúr í Hlíðarvatn með Einari Fal ljósmyndara og blaðamanni. Við komum að kveldi og veiddum sína hvora bleikjuna, ca 2 punda fiska. Slægðum þær við aðgerðarskúr Ármanna og hengdum slorið á krók í lokuðum plastslöngum. Sátum síðan úti á verönd og supum smávegis af bjór áður en haldið var í koju. Úti á palli, uppi á stól, var skilinn eftir poki með þremur litlum bjórdósum. Að morgni dags var allt á tjá og tundri, pokinn kominn á gólfið, bjórslettur um allt. Ein dós tóm og önnur öll pjökkuð í sundur. Það var eitthvað undarlega skrollandi krunkið sem barst okkur. Og ekki var aðkoman geðslegri nema síður sé við aðgerðarskúrinn. Búið að ná slöngunni af króknum, rífa upp pokann og slor bókstaflega út um allt. Hreingerning stóð yfir í hart nær kortér